Ekki er enn ljóst hvort Tjörneshreppur geti afþakkað 250 milljóna króna fólksfækkunarframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, eins og hreppsnefndin vill gjarnan gera.
Innviðaráðherra benti hins vegar á það í viðtali á mbl.is að ekki væri víst að það væri hægt, þó að það væri skynsamlegt hjá sveitarfélaginu að bjóðast til þess.
Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti í Tjörneshreppi, segir hreppsnefndina eiga í samtali við Jöfnunarsjóð vegna málsins, en að ekki sé komin niðurstaða í það ennþá.
„Það er alveg rétt að það er erfiðara en við áttum von á að segja bara nei,“ segir hann í samtali við mbl.is.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/17/50_manna_sveitahreppur_sem_sinnir_engri_thjonustu/
Leynd yfir hugmyndunum
Sveitarfélagið er eitt það minnsta á landinu og telur aðeins rétt rúmlega 50 íbúa. Framlagið nemur því rúmlega fimm milljónum króna hvern íbúa í sveitarfélaginu.
Þannig að þið sitjið kannski bara uppi með þessa peninga?
„Já, við erum bara að skoða málið og hvað við gerum, í samráði við Jöfnunarsjóð. Hlutirnir eru víst ekki alltaf jafn einfaldir og maður á von á.“
Spurður hvort búið sé að skoða hvað verði gert við peninginn verði ekki hægt að afþakka framlagið, segir Aðalsteinn það hafa verið rætt. Hann er þó ekki tilbúinn að gefa upp þær hugmyndir.
„Honum verður fundinn einhver farvegur ef til þess kemur.“
Þá innan sveitarfélagsins?
„Það hefur ekki verið ákveðið,“ segir Aðalsteinn, en í viðtali við mbl.is í október sagði hann það hafa verið rætt á léttu nótunum að taka við framlaginu og láta nágrannana í Norðurþingi hafa það. Það er hins vegar ólöglegt.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/14/hofdum_ekki_ged_i_okkur_ad_taka_vid_framlaginu/
Höfðu ekki geð í sér að taka við peningunum
Tjörneshreppur hefur einu sinni áður fengið 10 til 12 milljóna króna fólksfækkunarframlag, en Aðalsteinn sagði í október sveitarfélagið ekki hafa geð í sér að taka við 250 milljónum.
Það sem auðveldaði ákvörðunina var, að hans sögn, sú staðreynd að styrkurinn fylgir því sem hann kallaði bratta ákvörðun innviðaráðherra um að setja inn ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksstærð sveitarfélaga upp á 250 íbúa. Slík ákvörðun felur í sér að sveitarfélög með færri en 250 íbúa gætu þurft að sameinast öðrum.
„Við höfðum ekki geð í okkur að taka við framlaginu, að vera samnefnari við þessa aðgerð, að svipta íbúa landsins sínu íbúalýðræði,“ sagði Aðalsteinn í október.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/14/afthokkudu_faranlegt_framlag/