Laugardagur, 27. ágúst 2011

Jónína Björg Guðmundsdóttir

Jónína Björg Guðmundsdóttir, bóndi og húsmóðir, fæddist á Dvergasteini við Seyðisfjörð 31. janúar 1937. Hún lést á Kirkjuhvoli 17. ágúst 2011. Foreldrar Jónínu voru Guðmundur Sigfússon bóndi og síðar verkamaður, f. 1913, d. 1996, og Þorbjörg Pálsdóttir húsmóðir, f. 1915, d. 2002. Systkini Jónínu eru Guðmundur, f. 1939, búsettur á Hvolsvelli, Garðar, f. 1941, búsettur í Reykjavík, Sveinveig, f. 1942, búsett í Garðabæ, Árni, f. 1946, búsettur í Þorlákshöfn, Þórdís Gróa, f. 1949, búsett í Hafnarfirði, Svanhildur, f. 1950, búsett í Hafnarfirði, Heimir, f. 1957, búsettur í Þorlákshöfn, og óskírður drengur, f. 1959, d. 1959. Jónína var gift Árna Jóhannssyni bónda, f. í Teigi í Fljótshlíð 2. apríl 1932, d. 6. desember 2009. Árni var sonur hjónanna Jóhanns Jenssonar bónda í Teigi og Margrétar Albertsdóttur húsmóður. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, f. 30. september 1958, búsett í Reykjavík, gift Páli P. Theódórs, f. 25. september 1958, synir þeirra eru Árni Björn, f. 11. nóv. 1982, unnusta Sylvía Sigurbjörnsdóttir, f. 21. ágúst 1984, Fannar, f. 16. ágúst 1986, sambýliskona Dagný Lóa Sighvatsdóttir, f. 18. júní 1989, og Hlynur, f. 21. október 1993. 2) Guðbjörn, f. 1. mars 1960, búsettur í Reykjavík, kvæntur Hlín Hólm, f. 10. október 1966, börn þeirra eru Anna Þrúður, f. 3. september 1988 (móðir hennar er Ragnhildur Anna Gunnarsdóttir), Helga, f. 3. maí 1992, og Hugi, f. 12. september 1995. Jónína ólst upp í Fljótsdal í Fljótshlíð frá 9 ára aldri. Hún lauk prófi frá Húsmæðraskólanum á Laugarvatni árið 1956. Jónína byggði upp hið myndarlega bú í Teigi ásamt Árna manni sínum og átti þar heimili til dauðadags. Búnaðarfélag Fljótshlíðar veitti Jónínu og Árna afreksbikar fyrir árangur í búfjárrækt og snyrtimennsku árið 1991. Jónína sat um árabil í stjórn Kvenfélags Fljótshlíðar og átti m.a. þátt í byggingu sumarhússins Birkihlíðar. Eftir að Árni lést í desember 2009 bjó Jónína ein í Teigi en dvaldi þó síðasta árið að mestu á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli. Útför Jónínu fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag, 27. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl.14.

Ég er einn af þeim sem er svo heppinn að hafa alist upp hjá góðu fólki og fengið að njóta þess sem börn gátu fengið á þeim tíma.

Ég er einnig svo heppinn að hafa þær minningar frá æsku og fullorðinsárum að geta talið Jónínu og Árna heitinn til minna nánustu. Það er í mínum huga ómetanlegur fjársjóður og veganesti að hafa fengið að upplifa þau forréttindi að hafa kynnst þeim hjónum sem í mínum huga fóru bæði allt of snemma.

Ég var fimm ára gamall þegar ég kom fyrst að vesturbænum í Teigi. Smá stubbur, rauðhærður með gleraugu og fannst ég eiga heiminn. Sjálfsagt fram úr hófi kotroskinn og þótti lífið og tilveran ægispennandi og full af ævintýrum. Þar var mér alla tíð vel tekið og man ég hvað mér þótti ég vera orðinn mikill maður með mönnum þegar ég fékk að dvelja hjá Jónínu og Árna sem „vinnumaður“ í eina viku þá sex ára gamall en seinna urðu sumrin samfelld allt þar til ég var á átjánda ári.  

Á Teigi 2 var ákaflega myndarlegur búskapur starfræktur, sauðfé, kýr og hross og alltaf mikið um að vera.  Ávallt var mikill gestagangur, vinnumenn komu og fóru, Hrafnhildur og Bjössi börn þeirra hjóna aðstoðuðu við búskapinn ásamt því að stunda nám og stofna sínar fjölskyldur með sínum mökum Palla og Hlín sem öll tóku þátt í búskapnum að Teigi.

Jónína var þessi ekta duglega bóndakona í sveit, tók þátt í öllum störfum utandyra, ók dráttarvélum eins og herforingi, vann langan vinnudag ásamt Árna og hélt heimilinu gangandi meðfram bústörfum sem ekki var lítið starf með fullt hús af fólki. Hún fann sér hinsvegar oftar en ekki tíma til að grínast með okkur strákunum sem vorum vinnumenn á bænum á sumrin. Mér er það í fersku minni þegar við vorum að suða í henni að fá að aka Land Rovernum heim neðan af aurum í miðjum heyskap, þá smátittir ég og Guðmundur vinnumaður.  Til að losna við suðið í okkur sagði hún að það væri allt í lagi ef við þyrðum að skríða yfir ána á fjórum fótum. Guðmundur lét sig hafa það í það skiptið og uppskar akstur heim að bæ í staðinn.

Ein af minningunum frá æsku sem Jónína minnti mig oft á í gegnum tíðina var þegar hún kom að mér þá rétt orðinn sex ára gamall inn í Þórólfsfelli sem kallað er þegar verið var að taka á móti fénu að hausti komandi af fjalli.  Spyr hún mig sem svo hvort ég ætli ekki að leika við hina krakkana. Ég var víst nokkuð snöggur að reigja mig og sperra og ku hafa tjáð henni að ég væri nú sko löngu hættur að leika mér og við það sat en henni var mikið skemmt og rifjaði það oft upp.

Margar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa heim að Teigi. Allir útreiðatúrarnir niður á aura á kvöldin þegar færi gafst, hestaferðir inn á Fljótshlíðarafréttir og Þórsmörk ásamt því að fara ríðandi út á Gaddstaðaflatir á stórmót Geysis og vera treyst til að sýna hesta í keppni.  Hestakostur var frábær í Teigi og þau hjónin bæði ákaflega hestfær og héldu alla tíð góð hross svo eftir var tekið.

Það er ekki einsdæmi að þegar fólk hefur búið og starfað saman jafn lengi og Jónína og Árni gerðu, rekið sinn búskap á samhentan hátt að þegar annar makinn fellur frá þá er oft ekki langur tími sem líður þar til hinn fylgir á eftir og svo háttaði hjá Jóníu og Árna.  Árni féll frá allt of ungur eftir skammvinn en erfið veikindi og mann setti hljóðan þegar fregnir bárust af fráfalli Jónínu nú á dögunum. Jónína hafði flutt út á Hvolsvöll fyrir u.þ.b ári síðan eftir að hafa brotnað illa á fæti í ferðalagi til að hafa aðstoð meðan hún jafnaði sig og ákvað svo að dveljast þar áfram ekki síst til að hafa félagsskap af öðrum.  Hún hafði hinsvegar sinn eigin bíl, ók oft inn að Teigi og hvert sem hún þurfti að fara ef svo bar undir, hitti fólk og var félagslynd kona og skemmtileg að vera með til síðasta dags.

Mér og konu minni þótti vænt um góðan dag fyrr í sumar þegar hún kom og heimsótti okkur inn í Fljótshlíð að Kaffi Langbrók þar sem við vorum í útilegu og sat hjá okkar lungann úr deginum. Sat með okkur og spjallaði og rifjaði upp gamla tíma. Hún hafði áhuga á því sem var að gerast í kringum hana, ættingjum og vinum, spáði í framtíðina og hafði sínar skoðanir á lífinu og tilverunni og var ófeimin við að tjá sig ef henni fannst eitthvað öfugsnúið í aðgerðum manna.

Ég held að segja megi að oftar en ekki er sá sem ritar minningargrein um einhvern sem honum er kær að skrifa sig frá þeim tómleika sem því fylgir að missa úr lífi sínu manneskju sem honum stóð nærri og er ég þar engin undantekning.  Með fráfalli Jónínu og Árna sem voru miklir höfðingjar heim að sækja og fylltu mann miklu stolti að þekkja er stórum kafla lokið í manns eigin lífi en eftir lifir minning um stórhuga dugnaðarfólk sem markaði stór spor í lífið og tilveruna með sínu ævistarfi og tilveru. Það verður tómlegt að geta ekki rennt upp að Teigi í framtíðinni, gengið inn í bæ ,sest við eldhúsborðið og spjallað með kaffibolla.

Við Jóhanna ásamt ættingjum okkar viljum senda Hrafnhildi og Bjössa, mökum þeirra og börnum   okkar innilegustu samúð. Minningin lifir.

Hörður Gunnarsson