Laugardagur, 19. september 2009

Sigurður Snorri Þór Karlsson

Sigurður Snorri Þór Karlsson fæddist 11. ágúst 1945 að Hofsstöðum í Stafholtstungum. Hann lést á lungnadeild Landspítalans 10. september síðastliðinn eftir erfið veikindi. Foreldrar hans eru Bergljót Snorradóttir, f. 16.6. 1922 og Kristján Karl Þórarinsson búfræðingur, f. 10.11. 1913, d. 14. júlí 1990. Sigurður var næstelsta barn þeirra hjóna, en þau eru Unnur Kolbrún Karlsdóttir, f. 3.2. 1942 og Guðmundur Brúnó Karlsson, f. 29.10. 1947. Sigurður kvæntist þann 28. desember 1969 Kristínu Steinþórsdóttur frá Stokkseyri, sjúkraliða, f. 18.2. 1949. Þeim hjónum fæddust fjórir synir. Þeir eru: 1. Sigurður Dagur, flugstjóri hjá Atlanta, f. 14.2. 1967, maki Sigríður Sif Magnúsdóttir viðskiptanemi, f. 5.5. 1975. Börn þeirra eru Magnús Máni og Krista Björt. 2. Karl Áki verktaki, f. 30.8. 1969. Sonur hans og Margrétar Guðnadóttur er Sigurður Orri. Dætur hans og Berglindar Ragnarsdóttur Heiður og Kristín. 3. Snorri húsasmiður, f. 12.10. 1971. Kvæntur Fjólu Kristinsdóttur viðskiptafræðingi, f. 27.2. 1972, þeirra börn Daníel Arnór og María Ísabella. 4. Gauti flugmaður, f. 5.5. 1981. Maki Kolbrún María Ingadóttir háskólanemi, f. 10.4. 1984. Eiga þau von á sínu fyrsta barni í nóvember. Sigurður og Kristín slitu samvistir. Sigurður fluttist með fjölskyldu sinni að Kjartansstöðum í Flóa 12. maí árið 1950. Hann vann við bústörf á æskuheimilinu strax og hann hafði aldur til. Sótti nokkrar vertíðir til Stokkseyrar og stofnaði eigið verktakafyrirtæki, Verktækni ehf., ungur að árum. Vann hann við það sleitulaust meðan stætt var, eða til ársins 2006 þá heltekinn af M.S.A.-sjúkdómi. Sigurður hóf flugnám 1973 og fékk einkaflugmannsréttindi árið 1975. Hann hafði yndi af flugi og notaði hverja stund er gafst til þess. Synir hans tveir eru atvinnuflugmenn svo vélin hans TF HAL var ekki oft á jörðu niðri í þeirra ungdæmi. Sigurður hafði yndi af söng og gekk í Karlakór Selfoss 1994 þar sem hann starfaði og söng til æviloka. Árið 1998 hóf Sigurður sambúð með Ingunni Guðmundsdóttur, atvinnurekanda á Selfossi, fædd 12.10. 1951. Hennar dóttir er Þórdís Sólmundardóttir, fædd 7.1. 1969. Þau bjuggu á Selfossi í húsi sem þau reistu sér á bökkum Ölfusár. Útför Sigurðar Snorra Þórs Karlssonar verður gerð frá Selfosskirkju laugardaginn 19. september kl. 11.

Kær heimilisvinur og nágranni úr Stekkholtinu í rúm 30 ár, Sigurður Karlsson hefur kvatt þetta líf, langt um aldur fram. Það hefði ekki átt að koma okkur á óvart sem vel þekktum til hans að stríðinu væri lokið, en það gerðist nú samt því hann var svo oft búinn að sigra erfiða hjalla og koma á óvart og var ótrúlegur í baráttunni við félaga Parka eins og hann sagði svo oft, en kallið er alltaf jafn sárt.

Fyrstu viðbrögð við þessari frétt voru dofi bæði andlegur og líkamlegur og  erfitt var að hugsa, en svo fóru minningarnar að streyma og þar er af mörgu að taka í minningu um Sigga Kalla og erfitt í fáum orðum að lýsa því. Kynni okkar hófust fyrir 40 árum þegar við námum land í Stekkholtinu  sitt hvoru megin við götuna og vorum nágrannar í rúm 30 ár eða þangað til Siggi flutti á Árveginn.

Úr Stekkholtinu er margs að minnast. Þar var lagður grunnur að framtíðinni, byggð hús og heimili og Siggi og Þráinn stofnuðu Verktækni 1971 sem atvinnufyrirtæki og sögðum við konurnar stundum að það væri tekið af mjólkuraurunum. Á sama tíma vorum við að ala upp börnin okkar sem voru á svipuðum aldri og við foreldrarnir vorum  nánast á sama aldri. Það var hist reglulega og tekið þátt í því sem var að gerast og hjálpast að, sitt á hvað ef með þurfti, jafnt innan dyra sem utan og börnin léku sér saman og urðu vinir. Þarna þróaðist einstakt samfélag sem aldrei bar skugga á.

Siggi var mjög sterk persóna í þessu samfélagi og ávallt reiðubúinn að rétta hjálparhönd óumbeðinn og það var alltaf jafngott að koma á heimili hans og Kristínar konu hans og eigum við margar ógleymanlegar minningar frá þeim tíma, Siggi sagði oft á þessum árum, hún gerði nú þetta hún Kristín mín blessunin.

Siggi hafði góðan húmor og frásagnargleði og notaði það óspart ég man eftir hvað hann hló að mér þegar ég bakkaði á bílnum mínum upp á ruslatunnuna sem var út á götu eftir losun og þar spólaði ég upp á tunnunni, en hann kom hlaupandi og ýtti mér niður og sagði að ég kæmist ekki ofan í tunnuna.

Siggi Kalla var stór og sterkbyggður karlmaður sem lét mikið að sér kveða í samfélaginu og var virkur hvar sem hann kom nærri og vildi leysa öll mál vel af hendi enda var hann einstaklega laginn með sínar stóru hendur alveg sama hvað hann gerði og skólaganga hans var barnaskólinn á Þingborg., en hann var líka tilfinningaríkur og hjartahlýr og er það okkar fjölskyldu í fersku minni að um aldamótin 2000 var stórt skarð höggið í samfélagið í Stekkholtinu þegar Þórey nágrannakona okkar dó. Þá kom Siggi og faðmaði okkur öll og við grétum saman og börnin okkar eru enn að vitna í þessa stund.

Það urðu kaflaskipti í lífi Sigga þegar hann og Kristín skildu en þau áttu saman 4 efnilega stráka og var þetta honum erfiður tími. En hann var gæfumaður í lífinu og upp úr þessu fann hann hana Ingunni sína og Pylsuvagninn og allt fór að blómstra aftur og áttu þau sín fyrstu ár saman í Stekkholtinu og byggðu sér síðan glæsilegt hús við Árveginn með mikið og fallegt útsýni sem Siggi naut vel þegar kraftar fóru að dvína og í raun eyddi hann sínum síðustu kröftum í að gera garðinn sinn fagrann  við Fagurgerðið.

Siggi og Ingunn áttu mörg góð ár saman sem þau nýttu vel og nutu samvistanna og eigum við margar góðar og ógleymanlegar minningar frá heimili þeirra og úr Borgarferðum sem við nágrannarnir fórum saman í nokkur ár.

Með sárum söknuði kveðjum við höfðingjann okkar hann Sigga Kalla úr Stekkholtinu og biðjum góðan Guð að styrkja Ingunni og fjölskyldu, Bellu, Kristínu og strákana þeirra alla og fjölskyldur.          

Kæri vinur kvaddur ert,          

Kominn til æðri starfa.           

Höfðingi okkar áfram þú sért             

Öllum þú varst til þarfa.                          

(G.G.)                        

Guðbjörg og Þráinn

Elsku pabbi minn þá hefur þú yfirgefið hið jarðneska líf. Þú ert farinn allt of snemma, þú varðst 64 ára gamall fyrir aðeins rétt rúmum mánuði síðan. En undanfarin 8 ár hefur þú verið að berjast við hinn skelfilega taugasjúkdóm MSA. En þú barðist svo sannarlega hetjulegri baráttu og varst ekki á því að gefast upp svo auðveldlega. Á þriðjudag varstu sendur á Grensás og var ég glaður mjög því nú færir þú í þjálfun og þú yrðir komin í fínt form fyrir giftinguna okkar Siggu minnar um aðra helgi. Þegar ég hitti þig þar var það fyrsta sem þú sagðir, en það var ekta þú „Nú þarf ég að vera duglegur eins og Úlfurinn" auðvitað til að vera klár í brúðkaupið sem svaramaður minn. En aðeins tveim dögum síðar varst þú dáinn.

Minningarnar hellast yfir og eru þær ekkert nema yndislegar pabbi minn, en það er ekki ofsögum sagt að þú varst einstakur maður í alla staði, gífurlegt hraustmenni, dugnaðarforkur, góðmenni, hrókur alls fagnaðar, þekktir alla og allir þekktu þig.

Þú hefur víða komið við í lífinu, en jarðvinnu verktakabransinn varð á endanum þitt aðal ævistarf, og ég var ekki gamall þegar ég byrjaði að vinna með þér, u.þ.b. 12 ára gamall, ég man svo vel þegar ég byrjaði fyrst að typpa úr í grunnum á traktorsgröfunni, en ég fór þá beint eftir skóla í grunninn svo að þú gætir þá haldið fullum dampi á vörubílnum eftir grús í Ingólfsfjall.

Og um leið og ég var komin með meira próf vann ég meira og minna hjá þér þar til ég fékk vinnu sem flugmaður. En þessi tími var yndislegur og varð maður svo sannarlega reynslunni ríkari. En það kom nú líka fyrir eins og feðga er von og vísa að kastaðist í kekki, og gátum við orðið ansi reiðir, og ég jafnvel svo að ég grýtti frá mér skóflunni og sagðist hættur, en alltaf sættumst við, stundum nánast strax eða í versta falli daginn eftir, og við aftur bestu vinir. Við vorum nánir ég og þú og við feðgar allir, og það var oft líf og fjör þegar við vorum allir feðgarnir að malbika og Tóti frændi (en hann ólst að hluta til upp hjá okkur sem einn af bræðrunum) jafnvel mættur á svæðið líka, þá var engin lognmolla. Aldrei nokkurn tíma gátu þið Áki bróðir verið sammála hvernig átti að malbika plönin (en hann stýrði malbikunar vélinni) og miklar spekulasjónir með það, og kom maður þá oft inn í og hjó á hnútinn, þetta voru gríðarlega skemmtilegir tímar.

Ekki er víst að ég ynni við að fljúga Boeing Jumbo þotu um allan heim, ef ekki hefði verið fyrir þína flugdellu. Þú varst ein af aða driffjöðrum Flugklúbbs Selfoss, og varst alla tíð duglegur að fljúga eða þar til sjúkdómurinn kom í veg fyrir að þú flygir meira, en þú vildir absolut eiga flugvélina áfram. Ég er 8 ára gamall þegar þú fékkst einkaflugmannsprófið og man ég svo vel hvað ég hafði gaman af að fljúga með þér. Þú lifðir þig mjög inn í mitt starf og fylgdist mjög vel með hvað væri að gerast í bransanum. Þér entist því miður ekki ævin til að koma með mér í flug á Jumboinum eins og þig langaði svo mikið til.

Elsku Pabbi minn að lokum langar mig að rifja upp magnaða sögu sem er lýsandi fyrir þig. Fyrir nokkrum árum síðan er ég vann að loka frágangi á garðinum við húsið mitt. Kemur til að aðstoða mig aldraður en afskaplega viðkunnanlegur vörubílstjóri og tökum við tal saman, og að því kemur að hann forvitnast um mig og mína fjölskyldu, og svo ótrúlega vill til að hann þekkir þig. (Maður hafði stundum á tilfinningunni að allt Ísland þekkti þig) Seinna um kvöldið löngu eftir að við höfðum klárað okkar vinnu hringir hann í mig, og vildi segja mér smá sögu um þig pabbi minn. Þið höfðuð verið að vinna saman í vegavinnu á Þingvöllum og var unnið mikið og lengi, og Gunnar Andrésson verður fyrir því óláni að velta vörubílnum, og skemmdist hann allnokkuð og leit út fyrir að Gunnar yrði frá vinnu í einhverja daga meðan gert væri við bílinn. Skiptir engum togum að þú um kvöldið safnar liði og færð menn með þér og ræðst í að gera við bílinn. Þið eruð að alla nóttina og um morguninn mætir Gunnar með bílinn ökuhæfan á tilsettum tíma í vegavinnuna og missti ekki dag úr vinnu. Eftir að hann segir mér þessa sögu í símann kemur þögn, og svo segir hann, „svona gera bara góðir menn" Sem þú svo sannarlega varst.

Elsku pabbi minn skilaðu kveðju til afa Kalla.

Ég þakka kærlega öllum þeim sem hjúkruðu pabba mínum.

Þinn sonur,

Sigurður Dagur Sigurðarson. Sigga Sig, Magnús Máni og Krista Björt