United skellti Tottenham í seinni hálfleik

Edinson Cavani, lengst til vinstri, fagnar með liðsfélögum sínum eftir …
Edinson Cavani, lengst til vinstri, fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa komið Manchester United í forystu í dag. AFP

Manchester United vann 3:1-sigur í dramatískum leik gegn Tottenham í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Leikurinn fór rólega af stað og gerðist í raun fátt markvert fyrsta hálftímann eða svo, en það átti heldur betur eftir að lifna yfir hlutunum í Lundúnum. Á 34. mínútu skoraði Edinson Cavani laglegt mark eftir sendingu frá Paul Pogba en markið var hins vegar dæmt ógilt. Scott McTominay hafði þá rekið höndina í andlit Heung-Min Son í aðdraganda marksins og þó snertingin hafi verið lítil ákvað dómari leiksins að dæma aukaspyrnu, gestunum til mikillar gremju.

Eftir þetta virtist ætla sjóða upp úr enda leikmenn United pirraðir og það bætti ekki skap þeirra þegar Tottenham tók forystuna á 40. mínútu. Lucas Moura renndi þá boltanum fyrir markið og fyrrnefndur Son mætti þar til að skora með hnitmiðuðu skoti. Staðan 1:0 í hálfleik, Tottenham í vil.

Eftir hlé tókst gestunum frá Manchester að snúa taflinu við. Brasilíumaðurinn Fred skoraði sitt annað mark fyrir félagið og það fyrsta síðan 2018 þegar hann skóflaði boltanum í netið af stuttu færi eftir að Hugo Lloris sló skot Cavani út í teiginn. Úrúgvæinn átti svo eftir að fá markið sitt. Á 79. mínútu átti Mason Greenwood frábæra fyrirgjöf frá hægri sem Cavani stangaði í hægra hornið úr flugskalla, staðan orðin 2:1 fyrir gestina.

Sigurinn var svo innsiglaður seint í uppbótartímanum þegar Paul Pogba kom knettinum á Mason Greenwood innan teigs sem sneri af sér varnarmann og skoraði með hnitmiðuðu skoti í nærhornið. Lokatölur 3:1, United í vil.

Með sigrinum fara rauðu djöflarnir í 63 stig og eru nú 11 stigum á eftir toppliði Manchester City ásamt því að eiga leik til góða. Þá er United komið langleiðina með að tryggja sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en níu stig eru í Chelsea í 5. sætinu. Tottenham er í 7. sæti með 49 stig.

Harry Kane rekur knöttinn áfram með Fred á eftir sér …
Harry Kane rekur knöttinn áfram með Fred á eftir sér í leik Tottenham og Manchester United í dag. AFP
Tottenham 1:3 Man. Utd opna loka
90. mín. Bruno Fernandes (Man. Utd) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert