Umdeildur kaupréttarsamningur

Langflug, félag Finns Ingólfssonar og Giftar, hefur misst hlutafé sitt …
Langflug, félag Finns Ingólfssonar og Giftar, hefur misst hlutafé sitt í Icelandair.

Langflug, sem misst hefur allt hlutafé sitt í Icelandair, var stofnað af Samvinnutryggingum, síðar Gift, árið 2006 og var að langstærstum hlut þeirra eigu. Í október það ár keypti Langflug 32% hlut í Icelandair. Þann 13. desember sama ár keypti FS7, félag Finns Ingólfssonar, 25% af eignarhlut Samvinnutrygginga í Langflugi og eignaðist þar með óbeinan 7,9% hlut í Icelandair. Fyrir hlutinn greiddi Finnur einn milljarð, en hlutafé Langflugs var fjórir milljarðar króna. Í því fólst einnig að FS7 tók yfir fjórðungshlut skulda Langflugs, sem einnig voru um fjórir milljarðar.

Þann 21. febrúar 2007, var ákveðið í stjórn Samvinnutrygginga/Giftar að veita FS7 kauprétt að tveimur milljörðum í Langflugi að nafnvirði, en hlutafé Langflugs var þá fjórir milljarðar, eins og áður segir. Í kaupréttarsamningnum er FS7 tryggður réttur til að kaupa þetta hlutafé í Langflugi á sama gengi og FS7 hafði keypt fjórðungshlutinn á í upphafi.

Keypti af KS og seldi Mætti

Einhvern tímann á tímabilinu 15. desember 2006 til 30. ágúst 2007 keypti AB 57, fjárfestingarfélag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga (KS), hlut í Icelandair. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, var stjórnarformaður Samvinnutrygginga, og síðar Giftar. Höfðu þeir Finnur unnið saman í VÍS, þar sem Þórólfur var stjórnarformaður og Finnur forstjóri.

Þann 29. ágúst 2007 barst stjórn Giftar bréf frá Finni, þar sem hann óskar eftir því að skipta á bréfum sínum í Langflugi og bréfum í Icelandair. Léti Finnur m.ö.o. Gift eftir 25% hlut sinn í Langflugi og fengi í staðinn 7,9% í Icelandair. Beiðnin var samþykkt daginn eftir, en í henni fólst einnig að FS7 tæki yfir hluta af skuldum Langflugs.

Finnur var því kominn með beinan 7,9% hlut í Icelandair, þar sem áður hafði verið óbein eign í gegnum Langflug. Þá keypti Finnur bréf í félaginu af öðrum aðilum, þar á meðal AB 57. Eftir þessi kaup var eignarhlutur Finns kominn í 15,5%. Bróðurparturinn af þessum eignarhlut var seldur þann 30. ágúst til Máttar ehf., sem keypti 11,11%, en meðalgengi í sölunni var 32. Hagnaður FS7, og þar með Finns, af viðskiptunum nam 400 milljónum króna.

Eftir að hafa selt þessi 15,5% í Icelandair til Máttar og annarra fjárfesta nýtti FS7 kaupréttinn, sem áður hefur verið nefndur. Greiddi Finnur fyrir tvo þriðju hluta í Langflugi tvo milljarða króna. Þegar tekið er tillit til áðurnefnds 400 milljóna króna söluhagnaðar, var kostnaður Finns við síðari kaupin í Langflugi 1,6 milljarðar.

Viðskiptin gagnrýnd

Eftir þau viðskipti réð FS7 yfir tveimur þriðju hlutum í Langflugi á móti einum þriðja hluta Giftar. Hlutur Langflugs í Icelandair var 23,8% og óbeinn eignarhlutur FS7 því um 15,9%. Með þessum viðskiptum tvöfaldaði Finnur því óbeinan eignarhlut sinn í Icelandair og endaði með yfirráð yfir Langflugi.

Viðskiptin voru gagnrýnd af stjórnarmönnum í Gift og sagði einn þeirra að aðstaða Giftar til að fá gott verð fyrir sinn hlut væri verri en áður. Markmiðið með kaupréttarsamningnum við FS7 hefði verið að minnka hlut Giftar í Langflugi, en ekki að skapa kauprétt á lágu verði til að endurselja á hærra.

Finnur Ingólfsson.
Finnur Ingólfsson. Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK