Jóhannes hættir hjá Högum

Jóhannes Jónsson.
Jóhannes Jónsson. mbl.is/Skapti

Jóhannes Jónsson, kaupmaður, hefur vikið úr stjórn Haga hf. og hætt störfum og afskiptum af félaginu.  Ákvæði úr samkomulagi því sem Arion banki gerði við Jóhannes Jónsson í  febrúar sl. um tilhögun á stjórnun og sölu Haga hafa verið felld úr gildi, þar með talinn forkaupsréttur hans á 10% hlutafjár í Högum.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka, að gerður hefur verið 12 mánaða starfslokasamningur við Jóhannes auk þess sem hann fær 90 milljóna króna eingreiðslu við fullnaðaruppgjör á viðskiptum sínum við Arion banka. Jafnframt kaupir Jóhannes eignir á markaðsvirði: bíl, íbúð og sumarhús sem hann hefur haft til umráða.

Þá kaupir Jóhannes úr samstæðu Haga þrjár sérvöruverslanir, Top Shop, Zara og All Saints, og 50% hlut Haga í færeysku verslunarkeðjunni SMS. Kaupverð þessara eigna er 1237,5 milljónir króna sem er nokkru hærra en bókfært verðmæti þeirra á efnahagsreikningi Haga og er sanngjarnt verð að mati sérfræðinga bankans.

Hagar eru í söluferli hjá Arion banka og verður endanleg tilhögun þess og framkvæmd kynnt á næstunni. Jóhannes hefur lýst því yfir að hann hyggist bjóða í félagið í því söluferli. Í tilkynningu Arion banka segir, að það sé niðurstaða bankans að ekki sé æskilegt að selja fyrrgreindar verslanir með samstæðunni vegna  tengsla milli eigenda viðkomandi umboða og fjölskyldu Jóhannesar.

Auk þess að falla frá forkaupsrétti eru í samkomulagi bankans við Jóhannes ströng skilyrði um að Jóhannes og aðilar honum nátengdir efni ekki til samkeppni við Haga næstu 18 mánuði eftir undirritun samningsins. 

Í tilkynningu Arion banka er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að þær breytingar sem felist í samkomulaginu séu að mati bankans nauðsynlegur undanfari sölunnar á Högum. Þekking Jóhannesar á rekstri Haga hafi nýst vel til að koma félaginu yfir erfiða hjalla en nú taki aðrir við og ljúki söluferlinu.

„Það er mat bankans að hagsmunir Jóhannesar og bankans fari ekki lengur saman þar sem Jóhannes hefur lýst því yfir að hann hyggist bjóða í félagið í því söluferli sem nú fer af stað og því óhjákvæmilegt að gera breytingar sem setja alla fjárfesta við sama borð. Jóhannes gefur eftir 10% forkaupsrétt og samþykkir 18 mánaða samkeppnisbann.

Ákvarðanir um að selja sérleyfisverslanir skýrast af því að umboðin fyrir þær eru ekki föst í hendi vegna persónulegra tengsla og því ekki forsvaranlegt að selja þær með Hagasamstæðunni. Salan á 50% eignarhlut í SMS byggist á því að þar er um eign að ræða sem tilheyrir ekki starfsemi Haga hér á landi. Að auki er verið að selja þessar eignir á góðu verði fyrir Haga. Eftir standa Hagar sem söluvænlegt fyrirtæki í góðum rekstri.“

Undir samstæðu Haga falla Bónus, Hagkaup, 10-11, Útilíf, Zara, Debenhams, Topshop, Coast, Evans, Dorothy Perkins, Oasis, Karen Millen, All Saints, Day og Warehouse. Jafnframt eiga Hagar innkaupafyrirtækin Aðföng, Hýsingu, Banana og Ferskar kjötvörur. Arion banki eignaðist 95,7% hlut í Högum við  yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998 í október 2009. 

Sérstök tilfinning að kveðja Bónus

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK