Sigurður Björn Björnsson fæddist 11. nóvember 1941 á Seli í Grímsnesi. Hann lést á Vífilsstöðum 27. apríl 2021.
Sigurður var sonur Björns Kjartanssonar, f. 26. júlí 1905 á Seli í Grímsnesi, d. 9. september 1989, og Unnar Sigurðardóttur, f. 18. júlí 1916 á Urðarteigi í Berufirði, d. 5. júlí 1958.
Systir Sigurðar var Sigríður Björnsdóttir, f. 8. september 1940 á Seli í Grímsnesi, d. 21. janúar 2008. Bræður Sigurðar sammæðra voru Ingimundur Óskarsson, f. 4. desember 1934, d. 2. nóvember 2013 og Helgi Sigurjón Ólafsson, f. 15. júlí 1943, d. 31. ágúst 2020.
Sigurður ólst upp hjá föður sínum og Guðrúnu Guðjónsdóttur, föðursystur sinni og fóstru. Hún var fædd 2. júní 1899 og lést 11. janúar 1991.
Sigurður giftist þann 11. nóvember 1961 Elsu Óskarsdóttur, f. 19. júlí 1942. Þau skildu. Börn Sigurðar og Elsu eru: 1) Guðrún, f. 10. mars 1961 en hún er gift Alfreð Svavari Erlingssyni. Börn þeirra eru: a) Elsa Ósk, f. 24. júlí 1982 en hún er gift Jóhanni Gunnari Sigurðssyni. Elsa á tvö börn með fyrri manni sínum, Ásgeiri Sigurðssyni, þau Sigurð Frey, f. 2005, og Guðrúnu Kötlu, f. 2008, og auk þeirra á hún stjúpsoninn Aron Goða Jóhannsson, f. 2002; b) Matthías Svavar, f. 26. maí 1986 en sambýliskona hans er Dalíla Lirio. Þau eiga dótturina Natalíu Lirio, f. 2011; c) Sigurður Björn, f. 23. ágúst 1992; 2) Berglind, f. 20. maí 1964 en sambýlismaður hennar er Björn Harðarson. Börn Berglindar frá fyrri sambúð með Viktori Sveini Viktorssyni eru: a) Katrín Birna, f. 28. maí 1993 en hennar sambýlismaður er Tómas Hrafn Ágústsson. Þau eiga dótturina Júlíu Rán, f. 2020; b) Elías Örn, f. 5. ágúst 1997 en unnusta hans er Sædís Stefánsdóttir; 3) Björn Smári, f. 18. september 1966, d. 19. október 2020; 4) Hjördís Rut, f. 23. júní 1977 en hún er gift Ólafi Lúther Einarssyni. Dætur þeirra eru: a) Kolbrún Björg, f. 20. júlí 2001; María Hlín, f. 7. febrúar 2005 og Ríkey Rut, f. 29. apríl 2010.
Sigurður ólst að mestu upp í Reykjavík en dvaldi á Seli í Grímsnesi á sumrin. Hann gekk í Miðbæjarskólann og síðar Iðnskólann í Reykjavík þaðan sem hann lauk sveinsprófi og síðar meistaraprófi í húsasmíði. Síðar lauk Sigurður kennsluréttindanámi frá Kennaraháskóla Íslands. Sigurður starfaði sem húsasmiður framan af ævinni en tók til við smíðakennslu í Réttarholtsskóla á miðjum aldri, þar sem hann starfaði allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Útför Sigurðar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, 11. maí 2021, kl. 13.

Haustið 2008 steig ég undirritaður það gæfuspor að ráðast til starfa við Réttarholtsskóla. Þar tókst misfljótt kunningsskapur við nýja samstarfsmenn, hvort sem þeir höfðu tiltölulega stuttan starfsferil eða voru hoknir reynsluboltar stofnunarinnar. Sigurður Björn Björnsson smíðakennari, sem ýmist var kallaður Siggi smíðó eða Siggi smiður, tilheyrði seinni hópnum og hafði unnið við skólann í yfir tvo áratugi þegar þetta var. Hann var fremur lágvaxinn, þéttur á velli og þrælsterkur, enda gamall fimleikamaður. Við spjölluðum stundum saman í frímínútum og kom bærilega saman. Annað árið mitt við skólann bauð ég mig svo fram ásamt góðum Austfirðingi sem leiddi skólastarfið á þessum árum til að leggja Sigga lið þegar hann flutti búferlum upp í Neðra-Breiðholt. Þetta mat hann mikils og hrósaði okkur iðulega fyrir frammistöðuna og gæskuna sem honum þótti þetta sýna þótt ekki hafi verkefnið verið stórt. Þarna má segja að vinátta okkar hafi fest rætur. Hann launaði mér hjálpina síðar margfalt með aðstoð sem oftar en ekki sneri að smíði, hvort sem það voru breytingar á innanstokksmunum, myndarammaviðgerðir, kistusmíði fyrir gæludýr eða hjálp og ráðleggingar við viðhald verkfæra og húseignar.
Siggi var í miklum metum meðal nemenda, kennara og annarra starfsmanna Réttarholtsskóla. Hann var þægilegur í umgengni en hafði þó ákveðnar skoðanir á flestu sem sneri að nemendum og skólanum og stóð fastur á sínu. Hann var skapgóður, hláturmildur og gamansamur. Hann var líka stríðinn og trúlega máttu allir samstarfsmenn hans einhvern tíma þola græskulausa hrekki hans. Hann var vanafastur og vildi t.d. helst halda sínu fasta sæti á kaffistofunni. Sætið var þannig valið að hann sneri baki út í horn og sá yfir allt. Ég stríddi honum á því að þetta væri af því að hann hræddist að einhver læddist aftan að honum en hann sagði íbygginn að þetta væri svo hann ætti betra með að horfa á samstarfskonurnar. Hann var hins vegar mjög sjónskertur á öðru auga og líklegt að það hafi haft eitthvað með staðsetninguna að gera. Siggi lagði mikinn metnað í starf sitt og var duglegur að hvetja og leggja nemendum lið við smíðanámið, hvort sem fengist var við tré eða járn. Hann var duglegur að taka myndir af smíðisgripum nemenda sinna og í myndasöfnum hans má sjá mörg dæmi um vandaða og vel unna gripi þeirra. Þá var hann iðinn við að halda gildi tré- og málmsmíðinnar á lofti og þreyttist ekki á að sýna manni og hrósa fallegum munum nemenda. Sjálfur var hann mikill hagleiksmaður og sýndi mér m.a. neftóbaksdósir sem hann hafði gert og hvaða gullsmiður sem er væri fullsæmdur af. Siggi málaði talsvert eftir ljósmyndum, naut þess mjög og gerði margt vel.
Hann hafði gaman af að rifja upp atburði frá fyrri árum, frá æskuárunum og verunni í Seli, og eins að segja sögur af gömlum vinum og samstarfsmönnum og ýmsum þeim verkefnum sem hann hafði fengist við sem smiður áður en starfsferillinn við Réttarholtsskóla hófst. Eftirminnileg var honum Laugavegsganga á táningsárum og svo rifjaði hann stundum upp þegar hann rúmlega tvítugur byggði hús yfir fjölskylduna í Kópavogi. Þá var hann ákaflega stoltur af að hafa byggt Langholtskirkju og átti fjölda mynda sem sýndu hve hrikalegar aðstæður unnið var við. Einnig minntist hann stundum á árin sem hann vann hjá Trésmiðju Sigurðar Elíassonar og þá skemmtilegu vinnufélaga sem hann átti þar. Siggi hafði unun af vísum, einkum með gamansömum undirtóni, og var ótrúlega minnugur á margar slíkar sem hagmæltir vinir hans höfðu sett saman. Þá minntist hann iðulega á afkomendur sína og talaði um þá alla af mikilli hlýju og stolti.
Við Siggi störfuðum saman í Réttó í fjögur ár en héldum svo alltaf reglulegu sambandi eftir að hann fór á eftirlaun 2012. Hann var ákaflega ánægður með sinn gamla vinnustað og taldi sig lánsaman að hafa ráðist þangað. Hann kíkti oft í kaffi í skólanum og nokkur síðustu árin fyrir ástandið kippti ég honum stöku sinnum með þegar ég byrjaði seint og hætti snemma. Tvö sumur fór ég með honum í Sumarhöllina á Seli og lagði lið við að slá blettinn sem leynir vissulega á sér. Þarna á æskuslóðunum leið honum vel. Stundum kíktum við saman í Góða og könnuðum kostagripina sem þar voru á boðstólum. Okkur samdi ákaflega vel og vorum sammála um flesta hluti. Ég lét mig hafa það að hann væri heitur Valsari, reyndi að pína hann til að hylla Liverpool og tók ekki nærri mér þótt honum þætti lítið til Bítlanna minna koma. Siggi var meira fyrir harmonikkulögin enda mikill og góður dansari og hafði gaman af að grípa í nikkuna.
Bílslys sem Siggi lenti í fyrir 5-6 árum varð afdrifaríkt. Hreyfigeta hans skertist og líklega var hann oft illa kvalinn. Fráfall Sólveigar vinkonu hans fyrir tveimur árum varð honum mjög þungbært og ekki síður þegar einkasonur hans lést óvænt síðastliðið sumar. Þegar ég heimsótti Sigga nýlega var hann hins vegar hress og ákaflega ánægður að sjá mig. Við lögðum á ráðin um að fara og dytta að sveitasetrinu hans, Húsinu á sléttunni, í sumar og kannski slá blettinn. Það verður ekki en ég minnist góðs drengs og sakna vinar í stað.

Ólafur Jónsson.