Haukur Þorri fæddist í Reykjavík 9. mars 1994. Hann varð bráðkvaddur á Fjóni í Danmörku 13. desember síðastliðinn.
Foreldrar hans eru hjónin Þorvaldur Haukur Þráinsson, f. 8.11. 1963, og Björg Bragadóttir, f. 22.7. 1963.
Systkini hans eru Eyþór Bragi, f. 18.1. 1982, Kristrún Braga, f. 11.3. 1985, og Ingvi Þór, f. 18.10. 1990.

Haukur Þorri bjó með foreldrum sínum á Fjóni í Danmörku frá fimm ára aldri.


Útför Hauks Þorra fór fram í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ 23. júlí 2021. Hann er jarðsettur í duftkerakirkjugarðinum á Mosfelli í Mosfellsdal.

Nú sest ég niður og skrifa nokkrar minningar um hann elsku besta Hauk Þorra frænda sem tekinn var frá okkur allt of snemma. Þetta er svo ósanngjarnt og öfugsnúið því ef allt væri eins og við vildum hafa það væri það hann sem ætti að skrifa um gömlu frænku sína, en auðvitað ekki fyrr en eftir mörg, mörg ár.

Ég á sem betur fer margar góðar minningar um þennan dásemdardreng.

Hann kom sem leynigestur í stúdentsveisluna mína sem var úti í Viðey. Þá var hann bara pínulítill, nokkurra mánaða, og átti að vera í pössun en auðvitað vildi hann fagna með frænku og lét því svo illa í pössuninni að sigla þurfti með hann út í Viðey til foreldra sinna.

Haukur var dýraáhugamaður mikill. Hann fór nokkrar ferðir með okkur í sveitina þegar hann var lítill. Þar var hann mjög áhugasamur að vasast í dýrunum. Dýraáhuginn fylgdi honum alla tíð. Þegar hann fluttist til Danmerkur bættust fleiri dýr í safnið sem ég var reyndar ekki eins hrifin af og hann, t.d. snákar og eðlur. Hann var einnig mun áhugasamari en ég að skoða höfuðlýsnar, sem hann fékk einu sinni, með stækkunargleri, en samþykkti þó að útrýma þeim með lúsasjampóinu. Núna síðustu árin sá ég að áhugi hans á dýrum var enn til staðar þegar hann sendi mér myndir þar sem hann var að passa hund fyrir vin sinn.

Við áttum líka góðar stundir með honum í heimsóknum okkar til Danmerkur. Fórum með honum í Legoland, dýragarða, leikjagarða, strandferðir og kósíheit í garðinum þeirra. Þegar hann var lítill kom hann svo alltaf í sumarheimsókn til Íslands og var á Sogaveginum hjá ömmu Dísu og afa Rögga. Þá var nú fastur liður að fara í sund og held ég að þau hafi farið í sund á hverjum degi meðan hann dvaldi á Íslandinu.

Ég á líka minningu um hann í aftursætinu í bílnum mínum á rúntinum með mér að hlusta á útvarpið og syngja hástöfum með Bubba í laginu Þessi fallegi dagur. Og nú á ég erfitt með að halda aftur af tárunum þegar ég hlusta á það lag. Hann sendi mér einnig núna síðustu árin snöpp þar sem hann er á rúntinum þar sem Bubbalög hljóma undir, þannig að kannski hefur hann verið Bubbamaður eins og Þorbjörn Ottó, frændi hans.

Fyrir nokkrum árum eyddi hann viku með okkur á Kanarí. Það er ferð sem er mér mjög kær núna. Svo dýrmætt að hafa átt þar góðar stundir með honum og börnin mín minnast þeirrar ferðar einnig oft. Þar var Haukur aldeilis duglegur að leika með þeim og hamast með þeim í sundlaugunum og vatnsgörðum, jafn áhugasamur að djöflast í laugunum eins og þegar hann kom í Íslandsferðirnar sínar þegar hann var lítill. Í þessari Kanaríferð tók hann loforð af henni Kolfinnu Dís minni að passa sig á því að byrja aldrei að reykja. Það er loforð sem ég vona að hún ætli að standa við.

Haukur var mjög barngóður og börnin mín hændust mjög að honum. Og þó þau hittu hann sjaldan þá var alltaf eins og þau hefðu bara hist í gær. Hann vildi líka alltaf gera eitthvað með þeim þegar hann kom til Íslands. Bauð þeim í bíó, bíltúr og út á leikvöll. Eitt skipti datt og meiddi Kristján Bjarki sig úti á leikvelli með honum og þá huggaði Haukur hann og svo var brunað í næstu sjoppu að kaupa ís til að laga sársaukann alveg.

Með tilkomu samfélagsmiðla og sérstaklega Snapchat var ég í samskiptum við hann núna síðustu árin. Mér þótti ósköp vænt um að hann sendi mér oft snöpp af því sem hann var að brasa úti í Danmörku. Hann að passa hundinn, í ræktinni, úti á lífinu og á rúntinum. Og oft skrifaði hann og spurði mig nánar út í þegar ég var að senda honum myndir af því sem við vorum að brasa. Ég fann líka að honum þótti vænt um Íslandið því hann var að spyrja hvar myndirnar sem ég var að senda honum væru teknar og var að tjá sig um að hversu fallegar þær væru. Mér þótti svo vænt um að hann hefði áhuga á að vera í sambandi við gömlu frænku á Íslandi og vona að hann hafi vitað það hvað okkur þótti öllum vænt um hann og mun að eilífu þykja.

Elsku Haukur Þorri, ég minnist þín sem mikils gæðablóðs, svo umhyggjusamur, blíður og góður við menn og dýr.

Þín er sárt saknað.

Gunnur Björk og fjölskylda.