Þorsteinn fæddist á Akranesi 3. október árið 1955. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 22. júní 2022.

Þorsteinn var sonur hjónanna Magnúsar Þorsteinssonar bifreiðarstjóra, f. 23.5. 1924, d. 11.9. 1998, og Maríu Jakobsdóttur, húsmóður og matráðskonu, f. 16.4. 1927, d. 23.11. 1996.

Systkini Þorsteins eru þrjú: Sigurbjörn Helgi, f. 1950, Hafdís, f. 1961, og Jakob Smári, f. 1964.

Þorsteinn ólst upp á Akranesi til 13 ára aldurs þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur þar sem Þorsteinn bjó æ síðan.

Dóttir Þorsteins og Sigurjónu Kristinsdóttur, f. 28.10. 1960, er Kristín Táhiríh, f. 27.8. 1987. Börn Kristínar eru Hjalti Snær, f. 2010, og Þóra Sigurjóna, f. 2015.

Árið 1989 kvæntist Þorsteinn Þórdísi Tinnu Aðalsteinsdóttur, f. 10.12. 1968, d. 21.1. 2008. Þau skildu. Eftir grunnskólanám lærði Þorsteinn á gítar og hljóðfæraleikur var hans aðalstarf alla tíð.

Minningarathöfn um Þorstein verður í Laugarneskirkju í dag, 21. september 2022, kl. 15.

Ég: Blessaður, hvernig hefur þú það? Steini: Góður en þú? Ég: Mjög fínn. Steini: Vissir þú að það er búið að finna upp málningu sem hefur þannig efnasamsetningu að hún getur, með hjálp sólarljóss, framleitt rafmagn? Virkar svona eins og sólarsella. Eða, Steini: Simbi liggur malandi við hliðina á mér, ég fór í búð í gær og keypti rækjur, hann er sólginn í þær og er núna sæll og glaður. Eitthvað á þessa leið gátu dagleg samtöl okkar Steina þróast. Á tímabili sem ekki verður talið í árum heldur áratugum héldum við daglegu sambandi, oftast símleiðis, og tók hvert símtal mið af því flugi sem samræðurnar tóku. Efnistökin margskonar eða allt frá engu yfir í heimspekilegar vangaveltur um trúmál, pólitík, tónlist eða vísindi. Steini var vel að sér í flestum málaflokkum og yfirleitt var það hann sem leiddi mig inn á nýjar og ókannaðar slóðir.

Ég kynntist Steina 1970 í Breiðholtsstrætó, ég kom í vagninn í Blesugrófinni, Steini í Bökkunum, ég var 18, Steini 15, við höfðum vitað hvor af öðrum í tónlistarheiminum, Steini var í hljómsveitinni Arkimeters en ég var milli hljómsveita, ég þekkti til einhverra meðlima Arkimeters og því hafði verið lekið í mig að þeir væru með góðan gítarleikara, það var síðan sameiginlegur vinur okkar Steina sem kynnti okkur og við fórum að spjalla um tónlist, úr varð að ég fékk þá hugmynd að endurvekja hljómsveitina Litla Matjurtagarðinn sem ég hafði verið í, en sú hljómsveit hafði lagt upp laupana skömmu áður, ég bauð Steina að vera með sem hann þáði, enda Arkimeters í hvíld. Þannig hófst samstarf okkar Steina í tónlistarheiminum, samstarf sem þróaðist til ævilangrar vináttu.

Steini var frábær tónlistarmaður og allt sem hann kom nálægt breyttist í einhverskonar galdur. Sem betur fer lánaðast mér að vera með Steina í mörgum hljómsveitum og jafnframt taka þátt í mörgum hljóðritunum þar sem við báðir komum við sögu. En fyrst og fremst var það samstiga sýn okkar á lífið og tilveruna sem fleytti okkur til vináttu sem aldrei bar skugga á.

Steini fékk tónlistargáfuna í vöggugjöf og þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að leika á hljóðfæri, það var honum í blóð borið og skipti þá engu hvaða tónlistarstefnur voru á ferð. Eftir samstarf okkar í hljómsveitinni Eik skildi leiðir á tónlistarsviðinu. Steini gekk þá í hljómsveitina Þey en ég í hljómsveitina Brimkló. Á þessu tímabil heimsótti Steini mig reglulega á Marargötuna þar sem ég bjó. Steini var nokkuð vígalegur á þessum tíma og hafði klippt hár sitt í kamb enda við hæfi þar sem Þeysarar voru annars vegar. Af Marargötunni gengum við gjarnan í sjoppu á horninu á Túngötu og Bræðraborgarstíg til að ná í snakk og kóla, Steini með hanakambinn, ég öllu heimilislegri. Á leiðinni í sjoppuna naut Steini þess að fá augnagotur frá samborgurunum vegna kambsins og gerði grín að öllu saman og við hlógum. Já, Steini fékk fleira í vöggugjöf en tónlistina, hann hafði óborganlegan húmor og gat séð kómíska hluti í flestu ef ekki öllu. Og svo gat hann málað og teiknað og hann gat samið ljóð, allt flæddi fram af listfengi og algjöru áreynsluleysi.

Eftir Steina liggja tvær sólóplötur, sú fyrri ber heitið LÍF og kom út 1982, Steini vann þá plötu meira og minna einn ásamt upptökumanninum góða Tony Cook, ég bar gæfu til að taka þátt í þeirri síðari sem ber nafnið LEIT og var gefin út 2014, fyrir LEIT fékk Steini tilnefningu til Íslensku tónlistar-verðlaunanna sem besti flytjandi, því miður fékk hann ekki verðlaunin og má segja að það hafi dregið úr honum máttinn varðandi áframhaldandi tónlistariðkun og lék hann lítið sem ekkert á hljóðfæri eftir það.

Seinustu æviárin bjó Steini við Bríetartún í Reykjavík ásamt kettinum Simba sem honum þótti afskaplega vænt um. Þar naut hann þess að gera vel við sig í mat, matreiddi allskonar framandi rétti og lét mig gjarnan vita hvað væri í matinn hverju sinni, hvaða sósu hann hefði prófað og hvernig best væri að hantéra kjúklinginn. Við Bríetartún bjó hann sér athvarf með sínum veraldlegu eigum en fyrst og fremst athvarf þar sem hann náði að efla andann og ná sáttum við sjálfan sig og aðra og þar með ná því jafnvægi sem nægði til að losna undan oki Bakkusar sem hafði fylgt honum eins og mara í gegnum lífið.

Það bar aldrei skugga á vináttu okkar Steina og ég mun minnast hans svo lengi sem ég lifi. Ég kem til með að rifja reglulega upp hitaveitustokkinn sem við gengum eftir úr Blesugrófinni á æfingar með Litla Matjurtagarðinum, Eikina, ég mun rifja reglulega upp allan hláturinn sem hann kveikti með húmornum sínum, fyrstu lögin sem við sömdum saman og voru gefin út, öll heimspekilegu samtölin sem við áttum um allt og ekkert, Don Martin og MAD bækurnar, hrifninguna sem við fundum saman þegar við uppgötvuðum eitthvað nýtt í tónlistinni, og svo allt hitt.

Takk fyrir samveruna, kæri vinur, ég sakna þín mikið og kveð þig með orðinu sjáumst eins og við kvöddumst alltaf.

Við Hulda sendum systkinum, ættingjum og vinum Steina okkar innilegustu samúðarkveðjur.


Haraldur Þorsteinsson.

Í dag þegar við kveðjum bróður minn Þorstein eða Steina eins og hann var jafnan kallaður langar mig að minnast hans í nokkrum orðum.

Við systkinin fæddumst öll á Akranesi og þó að fimm ár væru á milli okkar Steina gátum við alveg leikið okkur saman í uppvextinum. Eins og algengt var á okkar uppvaxtarárum var móðirin heimavinnandi og fengum við því öll gott atlæti og umönnun. Steini hóf sína skólagöngu í Barnaskólanum á Akranesi og kom fljótt í ljós að hann var góðum gáfum gæddur, lærði fljótt að lesa og skrifa og átti gott með að tileinka sér allt námsefni. Það kom líka snemma á daginn að hann var skákmaður góður auk þess að vera mjög hagmæltur. Við bræðurnir gripum stundum í tafl og snemma varð það mitt hlutskipti og margra annarra að tapa hverri skák gegn honum.

Eitt var það þó sem háði Steina snemma á skólagöngunni, en það var að hann stamaði og átti stundum erfitt með að koma frá sér orðum hvort sem það var við upplestur í skólanum eða í samtölum við aðra. Og eins og verða vill þegar einhver er ekki steyptur í sama mót og aðrir varð Steini oft fórnarlamb stríðni og eineltis. En eins og hann sagði sjálfur frá í viðtali seinna fann hann sér nýja leið til að tjá sig og það var í gegnum tónlistina.

Ég var 15 ára þegar ég keypti mér rafmagnsgítar, sem voru mjög vinsælir í þá daga. Bítlarnir og margir aðrir að slá í gegn í tónslistarbransanum. Ég fann þó fljótt að ég myndi aldrei ná góðum tökum á hljóðfærinu svo að ég gaf Steina gripinn. Hann var þá 10 ára og var fljótur að tileinka sér hljóðfærið og læra á það. Segja má að hann hafi varla sleppt gítarnum eftir það. Þarna var komið tæki sem hann tjáði sig með áratugum saman og gerði það betur en margur annar.

Fljótlega eftir að fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1968 lagði Þorsteinn frá sér námsbækurnar að mestu og hóf að leika í hljómsveitum aðeins 15 ára gamall. Ég nefni bara þrjár, en það voru Eik, Þeyr og MX21 þar sem snilli hans naut sín hvað mest. Auk þess að spila í hljómsveitum lék Steini inn á fjöldann allan af hljómplötum fyrir marga fremstu tónlistarmenn landsins eins og Bubba Morthens, Megas, Spilverk þjóðanna, Rúnar Þór og marga fleiri.

Sjálfur gaf hann út tvær hljómplötur, Líf árið 1982, sem fjallaði um lífið og dauðann, og Leit, sem kom út árið 2015. Þar komu við sögu margir vinir hans úr tónlistargeiranum og eiga þeir allir þakkir skilið fyrir sitt framlag.

Eins og svo margir snillingar sem geta tileinkað sér alls konar listform og annað sem auðgar mannlífið átti Steini erfitt með að fóta sig í lífinu. Þar komu við sögu Bakkus og aðrir fíkniefnadraugar, sem gerðu honum lífið erfitt. Hann hafði því dregið sig alveg út úr allri spilamennsku. Hann átti þó eftirminnilega endurkomu á 50 ára afmælistónleikum Bubba árið 2006. Einn var á heimsmælikvarða, sagði í einni umsögn um tónleikana og var þar átt við Steina og hans framlag með MX21. Eftir að Steini gaf svo út hljómplötuna Leit hélt hann eina útgáfutónleika ásamt félögum sínum sem komu að gerð plötunnar.

Steini bróðir var alltaf leitandi í lífinu og mér finnst hann lýsa mjög vel eigin lífshlaupi í kvæðinu Leit, sem hann orti eitt sinn. Rúnar Þór gerði frábært lag við kvæðið og setti á eina af sínum plötum:

Með lokuð augu ég löngum stari
og leita að hinu eina svari.
Úr luktum munni spurninga spyr.


Með lokuð eyru ég ligg og hlera,
langar að vita hvað ber að gera
við lífið handan við dauðans dyr.

Er þetta kannski allt saman blekking?
Ekkert í lífinu nýtanleg þekking?
Á engu gerandi endanleg skil?

Með lokuðum huga ég læsi mig inni
í lífinu sjálfu, skelinni minni,
sem hvort eð er hvergi er til.

Ég er þess fullviss að nú hafi Steini fundið það sem hann var alltaf að leita að og það verður örugglega fjör á himnum þegar hann hittir þar félagana Kalla Sighvats, Gunnar Jökul, Rúnar Júl og fleiri snillinga. Örugglega munu þeir telja í vel valin lög þar.

Dótturinni Kristínu Táhiríh og barnabörnunum sendi ég innilegustu samúðarkveðjur.

Með sorg í hjarta kveðjum við nú látinn bróður og ástvin en gleðjumst yfir því að hann skildi eftir mörg gullkorn sem hægt verður að ylja sér við um ókomna framtíð.

Hvíl í friði, bróðir.

Sigurbjörn Helgi Magnússon.