Stein Ingólf Henriksen (Brói) fæddist 10. janúar 1942. Hann lést 5. september 2022.
Útför Bróa fór fram 15. september 2022.
Meira á: www.mbl.is/andlat

Á fallegum haustdegi fylgdum við elsku tengdapabba síðasta spölinn og er gott að rifja upp hvernig okkar fyrstu kynni urðu og hvernig allt mitt líf breyttist upp frá því.


Árið var 1996, okkur nýja kærustuparinu var boðið til brúðkaupsveislu. Ég var í dökkbláum síðkjól með þriggja metra silkisjal í veislunni. Kærastinn minn hafði ákveðið að lána brúðgumanum húsið sitt fyrir brúðkaupsgesti ofan af landi, sem var ekki svo frábært eftir á að hyggja þegar maður á nýja kærustu. Við gistum því í forstofuherbergi tilvonandi tengdaforeldra minna sem var ekki mikil skemmtun. Enda kannski ekki alveg unglingar að aldri, herbergið sneri í suður og rúmið var 90 cm að breidd. Til að gera langa sögu stutta, þá hafði ég ekki enn hitt tilvonandi tengdaforeldra og kannski ekki alveg draumurinn að mæta þeim í fyrsta skipti í skósíðum ballkjól með sjalið um herðarnar eins og spennitreyju, það lítur víst allt verr út í dagsbirtu. En þegar kona þarf að fara á salernið, þá halda henni engin bönd. Ég læðist út úr herberginu þarna um hádegisbilið og ætlaði nú bara að komast óséð aftur inn í herbergi, nema þá höfðu tengdaforeldrar mínir tilvonandi ákveðið að það væri afar góð hugmynd af bjóða fleiri fjölskyldumeðlimum í kaffi, sátu þau ekki full eftirvæntingar við eldhúsborðið og heilsuðu með virktum. Algjörlega frábært, eða þannig. Ég er þarna hálfpartinn dregin að borðinu til að fá mér veitingar. Brói stekkur á fætur eftir nokkra stund, rýkur niður í svefnherbergi og nær í enska kilju, jú hann hafði heyrt að ég talaði ensku og hvort ég gæti ekki þýtt titilinn á bókinni þarna í snarhasti, sitjandi í ballkjólnum, umkringd ókunnugum ættingjum og mundi allt í einu ekki stakt orð í ensku, þetta var stund sem ég hef ekki viljað upplifa aftur, hver bara gerir svona! En svona var Brói, hress, glaður, fljótfær og dreif í hlutunum og afar slakur í ensku!

En Brói var mér yndislegur tengdapabbi alla tíð. Ég viðurkenni fúslega að stundum vorum við ekkert endilega sammála, en það gerði bara samband okkar skemmtilegra. Þegar við sátum í dag fjölskyldan og létum myndir af Bróa renna í gegnum tölvuna, þá var áberandi að líf okkar fjölskyldunnar, ömmu Mary og afa Bróa var heilt í gegn greinilega ein veisla. Nánast hver einasta mynd var úr matarboði, afmæli, veislu, skemmtun eða fögnuði. Þannig líf getur ekki hafa verið leiðinlegt. Að hafa fengið svo yndislega tengdaforeldra var mikið lán fyrir mig og mína. Í Bróa fann ég líka félaga í jólageðveikinni. Hann toppaði mig nú alltaf, enda af músastigakynslóðinni, en þetta áhugamál áttum við saman og gátum rætt um jólaskraut eins og aðrir um fótbolta. Svo var það allra mikilvægasta og algjörlega ómetanlegt að börnin mín skyldu eiga jafn yndislegan afa og raun bar vitni. Hann var svo sannarlega afi af lífi og sál. Hann elskaði barnabörnin sín, líklega gaf hann þeim meiri tíma, ást og umhyggju en hann hafði haft tækifæri á við sína eigin syni, þar sem hann hafði haft mun minni tíma á árum áður vegna sjómennsku sinnar.

Ég veit að ég á að vera leið og ég veit að við öll hefðum viljað hafa þig lengur hjá okkur, en samt er ég líka glöð, ég er svo glöð fyrir þína hönd að þú hafir fengið að fara til Mary þinnar. Eftir að hún lést virtist þú aldrei ná að verða alveg heill, mikilvægasti hlutinn af þér var horfinn. Sorg þín og missir voru svo áþreifanleg að það var aðeins tímaspursmál hvenær þú gætir setið við hlið Mary þinnar aftur, dansað við hana og spjallað fram á morgun. Nú veit ég að þið eruð sameinuð og það gerir þetta allt miklu betra fyrir þig, við erum viss um það og vonum að þið eigið eftir að dansa um alla eilífð í örmum hvort annars. Elsku Brói tengdapabbi, pabbi og afi. Við eigum eftir að sakna þín ósegjanlega en ætlum frekar að reyna að minnast allra þeirra frábæru stunda sem við áttum saman öll þessi ár.


Það er gott að ljúka okkar samferð á litlu kvæði sem góður vinur Bróa og Mary skildi eftir hjá þeim eftir eina heimsóknina og á svo vel við um elsku tengdaforeldra mína:

Vestmannaeyjar eru æði fallegur staður,
býr þar margur góður maður.
Heimamenn með gestrisni þig af króa,
hvergi er þó betra að vera en hjá Mary og Bróa.

Þú lifðir svo sannarlega heill, sáttur og sannur, hafðu þökk fyrir allt og allt.


Þín tengdadóttir,

Arndís María Kjartansdóttir (Dísa).