Hrafn Jökulsson fæddist í Reykjavík 1. nóvember 1965. Hann lést á Landspítalanum 17. september 2022. Foreldrar hans voru Jóhanna Kristjónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, f. 14. febrúar 1940, d. 11. maí 2017, og Jökull Jakobsson, rithöfundur og útvarpsmaður, f. 14. september 1933, d. 25. apríl 1978. Alsystkini hans eru Elísabet Kristín, f. 16. apríl 1958, og Illugi, útvarpsmaður og rithöfundur, f. 13. apríl 1960, en hálfsystkini þeirra eru Unnur Þóra Jökulsdóttir, f. 7. júní 1955, Magnús Haukur Jökulsson, f. 20. júní 1971, og Kolbrá Höskuldsdóttir, f. 20. október 1971.

Hrafn eignaðist fjögur börn, Þorstein Mána, f. 5. mars, 1984, Örnólf Hrafn, f. 13. júlí, 1996, Þórhildi Helgu, f. 28. mars, 1999, og Jóhönnu Engilráð, f. 20. maí, 2009. Hrafn kvæntist fimm sinnum: Sunnevu Hafsteinsdóttur 1992, Ingibjörgu Þórisdóttur 1996, Guðrúnu Evu Mínervudóttur 2000 og Elínu Öglu Briem 2007, en hinn 22. ágúst 2022 kvæntist Hrafn eftirlifandi eiginkonu sinni, Oddnýju Halldórsdóttur f. 9. mars 1968.

Hrafn starfaði lengst af við blaðamennsku, sem hann hóf á Tímanum aðeins 15 ára að aldri. Síðar varð hann blaðamaður á Þjóðviljanum og umsjónarmaður Helgarblaðs Þjóðviljans, einungis 21 árs. Hann gerðist stríðsfréttaritari í Balkanstríðinu í lok síðustu aldar, en heimkominn var hann ritstjóri Alþýðublaðsins 1994-1996. Síðar ritstýrði hann tímaritinu Mannlífi um skeið og starfaði síðar við ýmsa prent og vefmiðla.

Hann var frá unglingsárum áhugasamur um stjórnmál og tók m.a. þátt í stofnun flokksfélagsins Birtingar innan Alþýðubandalagsins, sem beitti sér fyrir uppgjöri við arfleið kommúnismans. Hann var kjörinn varaborgarfulltrúi Nýs vettvangs árið 1990, varaþingmaður Alþýðuflokksins á Suðurlandi 1995 og tók tvisvar sæti á Alþingi.

Eftir Hrafn liggja 23 bækur og rit sem hann skrifaði ýmist einn eða með öðrum. Meðal þekktra bóka hans má nefna Íslenska nasista (1988), sem hann skrifaði með Illuga bróður sínum, Ástandið: mannlíf á hernámsárunum (1989) og Forsetar íslenska lýðveldisins (1990), sem hann reit báðar með Bjarna Guðmarssyni. Hann gaf út þrjár ljóðabækur: Síðustu ljóð (1988), Húsinu fylgdu tveir kettir (1991) og Þegar hendur okkar snertast (1993), en hann skrifaði einnig ljóðabók með Guðrúnu Evu Mínervudóttir (2000). Þekktustu bók sína, Þar sem vegurinn endar, gaf hann út 2007.

Hrafn var skákmaður góður og frumkvöðull að stofnun skákfélagsins Hróksins árið 1998, sem umsvifalaust varð sigursælasta skákfélag landsins og stóð jafnhliða fyrir alþjóðlegum skákmótum hér á landi í fremstu styrkleikaröð. Ósigrað eftir að hafa verið Íslandsmeistarar þrjú ár í röð hætti félagið keppni og einbeitti sér að útbreiðslu skáklistarinnar, bæði hér á landi og á Grænlandi. Hrafn gekkst jafnframt um árabil fyrir skákheimsóknum í fangelsið að Litla-Hrauni og í Barnaspítala Hringsins og hafði forystu um stofnun skákfélags í Vin, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Við ævilok Hrafns hafði Hrókurinn heimsótt nær allar byggðir Grænlands og flesta grunnskóla í yfir 60 ferðum.

Árið 2015 hlaut Hrafn viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children árið 2015 fyrir framlag sitt til velferðar barna á Íslandi og Grænlandi. Hann beitti sér mjög fyrir auknum tengslum grannlandanna tveggja og átti m.a. frumkvæði að því að grænlensk skólabörn kæmu hingað til lands til sundnáms. Hrafn gaf sig að margvíslegum framfara- og þjóðþrifamálum öðrum, sem flest tengdust velferð barna á einn eða annan hátt. Síðustu árin vann hann einkum að hreinsun strandlengjunnar í samstarfi við Veraldarvini.

Útför Hrafns verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 30. september 2022, klukkan 15.

Streymi á útför má finna á
mbl.is/andlat

Í lok apríl 1978 höfðum við Krummi verið hjá ömmu Elísabetu og Kristjóni afa á Reynimel og fórum saman á fótboltaleik á Melavöllinn. Rétt fyrir leikinn sagði Hrafn frændi við mig: Pabbi er dáinn ... flautað var til leiks og æsispennandi leikur hófst með athygli okkar og ákefð ungra drengja.

Við kvöddumst við frændur eftir leikinn þegar við skildum, ég vissi ekki hvað ég ætti að segja og ekki ræddi Hrafn þetta meira við mig.

Hann var á heimleið til Ænku móður sinnar (Jóhönnu) og ég til mömmu og pabba. Svo líða árin. Samskipti mest í fjölskylduboðum hjá ömmu og afa og svo hjá Völu systur pabba og Jóhönnu og Birni Theódórssyni eiginmanni Völu - góðar samverustundir fjölskyldunnar - en svo leið tíminn og þessi boð hættu í tímans hröðu ferð og yndislegur/erfiður líka tími æskunnar (sem í andanum stendur jú enn) - svo lífið - minni samskipti um nokkurra ára skeið.

Hann á fullri ferð upp úr 20 ára aldri í ritstjórastól, og auðvitað maðurinn sem menn réðu til að komast á þing og úr minnir mig öllum flokkum landsins á þeim tíma ... Krummi var þvílík maskína að ég hef aldrei séð annað eins ... með herdeildir manna og kvenna á mörgum víðstöðvum ... og hef ég nú séð margt og gert margt ... en þvílíkur kraftur og það var eins og frændi væri mörgum áratugum á undan sinni samtíð í mörgu tilliti. Við báðir á þessum tíma skáld, ca 1987, gefandi út ljóðabækur, að halda ljóðakvöld og fleiri uppákomur, hvor í sínu lagi reyndar, og ég að framleiða sjónvarpsþætti fyrir Sjónvarpið o.fl. o.fl. Og vissulega völlur mikill á okkur báðum. Svo fór ég til Ameríku í háskólanám og svo eftir þá dvöl, reyndar 10 árum seinna, 1997, keypti ég fornbókabúðina Bókina. En við Hrafn fórum fljótlega samt að hafa meiri samskipti ekki svo löngu síðar.

Hann fór til margra landa og sá gríðarlega mikla eymd en mikla fegurð líka - en vann sig og aðra út úr henni oft á köflum. Einstakur brautryðjandi auðvitað í að bjarga þúsundum barna og unglinga til betra lífs og til hamingju með því að halda námskeið og auðga líf þeirra á Grænlandi.

Svo náðum við aftur saman og einstaklega vel og vorum í nokkuð miklu sambandi, þó með löngum hléum inn á milli, síðustu 10 ár eða svo. Hann kom til mín í bókabúðina inn á milli - stundum á leið að sigra heiminn eða að setja saman mikla fundi og mikið stóð til - og hann sigraði heiminn margoft. Líka kom hann og fékk skjól hjá mér og mínu fólki - og hvíld frá áreitinu utan frá ... og við í Bókinni, Eiríkur Ágúst og ég og fleiri, gerðum allt til að Hrafni liði vel ef það var á brattann - og sálartetrið ekki sterkt. Hann fékk frið í bókabúðinni ...

Það er Hrafni, og mörgum fleirum auðvitað, að þakka að Vin á Hverfisgötu er ennþá opið fyrir fólk með andleg veikindi og þar vann Hrafn mikið starf. Á tímabili hélt hann þar mörg skákmót og við gáfum alla bókavinningana og þetta var virkilega skemmtilegt tímabil. M.a. er mér minnisstætt þegar Katrín Jakobsdóttir hafði keppt hjá Hrafni og fékk hún afhenta fágæta glæpasögu í verðlaun frá bokin.is.

Það er fallegt í minningunni þegar við Sirrý mín giftum okkur á Þingvöllum 27. júní 1997. Þá hélt Hrafn glimrandi ræðu í veislunni á Hótel Valhöll, eftir giftinguna í Þingvallakirkju, og ræddi margt en mest þó um mína þekktu og mörgu mannkosti að hans sögn. Og líka hvað lífið væri yndislegt og mikill leyndardómur. Nína Björk móðir mín var á lífi, elsku mamma, þá og ég man að hún kyssti Krumma rembingskoss eftir ræðuna enda voru þau náin. Og vinskapur þeirra einstaklega fallegur.

Elsku Oddný, Þorsteinn Máni, Jóhanna Engilráð, Þórhildur og Örnólfur. Og elsku Illugi, Kolbrá, Ella Stína, Unnur Þóra og öll stórfjölskyldan, innilegar samúðarkveðjur.

Þegar Illugi frændi minn og góður vinur hringdi og flutti mér fregnina að Hrafn hefði kvatt í morgunsárið féllu ósjálfrátt tár úr augum mínum.

Ég gat ekki hamið það. Og ég fór með litla Maríubæn eftir örlitla stund.

Takk fyrir að berjast frændi - gefast aldrei upp. Takk fyrir að vera góð manneskja og taka málstað með gleðinni, með voninni og að trúa á að hið góða sigri - þrátt fyrir mikið mótlæti og alla neikvæðnina sem tröllríður öllu og öllum. Og vissulega þurftir þú oft að berjast við illan leik við fíknir og Bakkus kóng. En alltaf komstu til baka og þá oft ennþá sterkari til góðra verka og sigra hér heima og fyrir börnin í Grænlandi eða hvað það var hverju sinni. Starfið var mikið.

Líka þegar allt virtist lokað og þú lokaður inni hélstu áfram að berjast, reyndar við illan leik, sannfærður um að þú værir með réttlætið með þér - og ég vil enda á þínum orðum og segi með nokkrum trega en algjörri einbeitni þegar ég kveð þig elsku frændi með miklum trega en með þínu góða slagorði: Fram til sigurs.

Ari Gísli Bragason.

Hrafn Jökulsson er genginn á vit feðra sinna og ein kynngimagnaðasta rödd samtímans er þögnuð. Lífshlaup hans var marglitt, eftir því viðburðaríkt og oft þyrnum stráð. Hrafn fékk ómældar vöggugjafir en snemma kom í ljós að fastmótaðar skorður samfélagsins hentuðu honum ekki alls kostar. Síkvikur hugur braut sér leið út fyrir ramman og greindi hismið frá kjarnanum.
Framan af hittumst við helst hlekkjaðir í niðdimmri auðn þar sem við fálmuðum eftir griðum: Vandamálið var þessi vodkaflaska. Þessi vodkaflaska, sem hafði þann eiginleika að tæmast aldrei. Þrátt fyrir að fótakeflið hægði oft á Hrafni þá héldu engir fjötrar aftur af sköpunar- og drifkrafti hans. Hugmyndauðgi hans var við brugðið enda sá hann oft möguleika sem öðrum voru huldir og lét þá hendur standa fram úr ermum. Hrafn lagði gjörva hönd á fjölmargt og verkefnin voru óþrjótandi. Hann var ötull málafylgjumaður og það var sem hann hefði dáleiðsluvald þegar koma þurfti brýnum málum í höfn. Með slíkum töfrum vann Hrafn oft þrekvirki og í því sambandi má nefna stofnum og umfangsmikil starfsemi Skákfélagsins Hróksins, hjálparstarf á Grænlandi og hreinsun strandlengjunnar. Þá stóð Hrafn fyrir óteljandi viðburðum sem miðuðu að því safna fé í þágu ýmissa góðgerðarmála sem mörg tengdust börnum og það var hans yfirbót. Verk sín vann Hrafn í sjálfboðavinnu enda skiptu veraldleg gæði hann litlu máli: Ég er ferðalangur og ferðalangur þarf ekki hús eða íbúð. Hér er ekki rúm til að tíunda öll verk Hrafns en þegar ferill hans er skoðaður má segja að hann hafi verið sem sjálfstæð stofnun góðgerða- og þjóðþrifamála.
Hrafn tignaði móðurmálið og skáldgyðjuna eins og leiftrandi stíll og sviprík ljóð hans bera með sér. Hver setning var meitluð og sögð á svo áhrifaríkan hátt að eftir var tekið. Hrafn þurfti skýra rödd til að ná til fólks koma hugmyndum á framfæri og hefja upp raust sína þegar aðrir horfðu í gaupnir sér. Það verður þó ekki dregin fjöður yfir það að rödd Hrafns drafaði stundum vegna viðbragða hans við tilfinningalegum sársauka.
Eitt góðgerðastarf Hrafns leiddi til náins samstarfs okkar. Um langt skeið heimsótti Hrafn, í nafni Skákfélagsins Hróksins, reglulega Barnaspítala Hringsins með gjafir í farteskinu og tefldi við börnin. Fyrir nokkrum árum lá Óli, yngsti sonur minn, lengi á Barnaspítalanum. Hrafn náði einstaklega vel til hans og þeim varð vel til vina. Í einni af heimsóknum Hrafns bárust vöggustofur borgarinnar í tal og þá kom í ljós að við höfðum báðir verið vistaðir á slíkri guðsvolaðri stofnun. Samræður okkar leiddu til þess að við bundumst fastmælum um að krefjast réttlætis fyrir kornabörnin sem sættu skelfilegri meðferð á vöggustofunum. Þá vildum við ekki síður tala máli hinna fordæmdu mæðra barnanna. Þegar þessi vegferð hófst kom enn betur fram hve réttsýn og góð manneskja Hrafn var ekkert var göfugra en að hjálpa illa stöddum börnum, hvort sem þau voru á stofnunum, Barnaspítalanum eða Grænlandi. Fátt lýsir samfélagi betur en einmitt meðferð þess á börnum. Í þeim efnum hefur pottur víða verið mölbrotinn hér á landi eins og mörg dæmi sanna. Því var markmiðið að afhjúpa stórskaðlega starfshætti á vöggustofum og girða fyrir að sagan gæti endurtekið sig. Að lokum náðist, með samstöðu hópsins Réttlætis, að lenda þessu brýna máli þar sem öll upphafleg markmið náðust. Hrafn taldi sjálfur að sú staðreynd að sem kornabarn hafi hann legið afskiptur í rimlarúmi á vöggustofu, án hlýju og örvunar, hafi mótað og skaðað hann fyrir lífstíð: Á Thorvaldsen ferðaðist ég um huga minn og skóp nýja heima, og það hef ég gert allar götur síðan. Innan við rimlana byrjaði ég að reisa höll ímyndunaraflsins þar hefur síðan verið mitt lögheimili og varnarþing. Blæðing svöðusársins á sálinni varð þó aldrei fyllilega stöðvuð.
Allt frá því að krabbamein Hrafns greindist var ljóst hvert stefndi enda var það langt gengið að ekki var við neitt ráðið. Í aðdraganda greiningarinnar brást heilbrigðiskerfið stórkostlega og meðferðin á honum er þungur áfellisdómur sem á að hafa eftirmála vera víti til varnaðar og leiða til endurbóta öðrum til heilla. Hrafn tók örlögum sínum af æðruleysi og ákvað að nýta þann stutta tíma sem gafst til að takast á við hið fjandsamlega kerfi og glöggva sig á ævintýralegu lífshlaupi sínu. Hann var opinskár um veikindi sín og leyfði almenningi að fylgjast með snerrunni við Surtlu. Á þeim vígvelli nutu mannkostir Hrafns sín og ekki var annað hægt en að fyllast aðdáun á hinum hugprúða riddara.
Hrafn var ekki einn í stríði sínu við Surtlu og margir studdu hann með ráðum og dáðum. Þá kom Oddný, eftirlifandi eiginkona Hrafns, eins og fyrir galdur inn í líf hans á ný eftir 30 ára aðskilnað. Hún var vakin og sofin yfir velferð hans en var þó fyrst og fremst kærleiksríkur og ómetanlegur sálufélagi.
Menn eins og eldhuginn Hrafn Jökulsson eru fágætir og hann snerti við mörgum á þeysireið sinni í gegnum lífið. Ég er þakklátur fyrir samfylgdina og andagiftina. Ég votta Oddnýju, börnum og systkinum Hrafns, dýpstu samúð mína.

Árni H. Kristjánsson.