Erling Jóhannesson fæddist í Eiðhúsum í Miklaholtshreppi 19. júlí 1934. Hann lést 14. maí 2023.

Erling var sonur hjónanna Jóhönnu Halldórsdóttur, f. 21. mars 1902, d. 8. júní 1970, og Jóhannesar Þorgrímssonar, f. 16. október 1898, d. 25. september 1988.

Systkini Erlings voru alls tíu og eru þau eftirfarandi: Bjarni Stefán Óskarsson (sammæðra), f. 7. nóvember 1925, d. 13. janúar 2000, Halldóra, f. 5. nóvember 1929, Þorgrímur, f. 6. nóvember 1931, d. 21. júní 1997, Soffía, f. 8. apríl 1933, Hörður, f. 9. febrúar 1938, d. 7. október 1988, Guðmundur, f. 13. október 1940, Hjalti, f. 1. nóvember 1943, d. 6. ágúst 2015, Þráinn, f. 1. nóvember 1943, d. 7. febrúar 2014. Tvö létust í bernsku, Halldóra, f. 29. september 1927, d. 3. mars 1930 og Drengur, f. 21. júní 1939, d. 1. júlí 1939.

Erling kvæntist Ólínu Önnu Guðjónsdóttur, f. 8. apríl 1937, frá Gaul í Staðarsveit, d. 3. nóvember 2017, þann 22. desember árið 1962 og eignuðust þau fjögur börn, þau eru: 1) Eva, f. 28. apríl 1962, gift Lárusi Björnssyni, f. 13. maí 1958, dætur þeirra tvær eru Elín Anna, f. 1981, gift Elvari Má Svanssyni, synir þeirra eru Erling Valur, f. 2006, og Alexíus Máni, f. 2011, sonur Elvars er Benjamín Andri, f. 1997, í sambúð með Helgu Rós, dóttir þeirra er Fanndís Lilja, f. 2017; og María Björk, f. 1993, í sambúð með Hafþóri Óla Þorsteinssyni. 2) Drengur, f. 19. júní 1963, d. 20. júní 1963. 3) Una, f. 28. mars 1965, gift Vagni Ingólfssyni, f. 22. maí 1961, dætur þeirra tvær eru Snædís, f. 1991, og Dagný, f. 1996, í sambúð með Guðbrandi Snæ Benediktssyni, dóttir þeirra f. 31.3. 2023. 4) Jóhannes, f. 11. ágúst 1969, giftur Valborgu Guðmundsdóttur, f. 25. júlí 1969, sonur Valborgar er Valur Freyr Guðlaugsson, f. 1989, dóttir hans er Stefanía Vala, f. 2010.

Jarðarförin fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag, 25. maí 2023, klukkan 13.

Erling afi minn er farinn að hitta Ólínu sína, mikið held ég að það hafi verið gott fyrir þau að hittast aftur. Mér finnst það samt mjög erfitt að þau séu nú bæði farin frá okkur en gott að hugsa til þess að þau séu þó saman.

Ég á margar minningar af Ella afa mínum og það var erfitt að velja úr þegar ég settist loks niður við skrif. Í bernsku minni var afi minn stór og sterkur maður og hafði mörg störf og hlutverk; bóndi, slökkviliðsstjóri, vörubílstjóri, vegavinnukarl, minka- og refaskytta, veiðimaður, íþróttamaður og svo margt fleira. Afi var einnig rólegur og yfirvegaður maður en mjög stríðinn og kenni ég yfirleitt honum og ömmu um (eða þakka fyrir) að ég og börnin mín séu stríðin. Eitt af skemmtilegustu minningum mínum frá Eiðhúsum var þegar við sátum við matarborðið þegar afi og Jói (móðurbróðir) reyndu sitt besta til að láta gesti missa matarlystina. Þá var mikið hlegið og sérstaklega þegar markmiðið náðist.

Ég fór ófáar ferðir á vörubílnum með afa að ná í sand, skemmtilegast þegar farið var í fjöruna að ná í sand. Ég var fyrsta barnabarnið og var eina barnabarnið fyrstu tíu árin. Eiðhús var mitt annað heimili og þar eyddi ég mörgum stundum. Afi sá til þess að hafa eitthvað til að leika með í garðinum, kom með stórt vörubíladekk og setti í það sand, bjó til rólu úr reipi og spýtu en það besta var Önnubúðin. Afi kom með risakrossviðarkassa sem hann sagaði út glugga og gerði hurð á, smíðaði bekk inn í og lítið borð við gluggann. Síðan fékk ég að hjálpa til að mála hann gulan eins og húsið á Eiðhúsum. Við skírðum kassann/kofann Önnubúð, því ég lék mér oft með hann sem búð, seldi nokkrar súkkulaðikúlur í gegnum gluggann og var með vatnstank þar þegar það var heyskapur. Afi kenndi mér líka að keyra fjórhjól þegar það var keypt í sveitina og var þakklát fyrir traustið þegar ég frétti að ekki allir hefðu fengið það traust.

Mér fannst alltaf gott að koma að Eiðhúsum og vera hjá ömmu og afa, hvort sem það var þegar ég var lítið barn, táningur eða fullorðin. Leikur, rólegheit, gleði og sveitasæla eru orðin sem koma i huga minn þegar ég hugsa um Eiðhús. Þeir sem hafa komið að Eiðhúsum vita að þar var langur gangur í gegnum allt húsið. Við afi pexuðum (göntuðumst) oft með það á hvern amma væri að kalla þegar hún kallaði frá símaborðinu hinum megin við ganginn og við sátum inn í sjónvarpsstofu, því Elli og Elín hljómaði mjög líkt þegar maður heyrði það langt að. Oft endaði amma á því að kalla frekar Anna ef síminn var til mín.

Ég og afi Elli áttum margt gott spjall saman í sveitinni og áttum margt sameiginlegt, ég passaði til dæmis alltaf að kaupa súkkulaðirúsínur á Vegamótum þegar ég keypti nammi því ég vissi að afi vildi þær. Oft hurfu unglingabækurnar mínar og síðar rómantísku sögurnar sem ég var að lesa, og var ég farin að passa að hafa þær á áberandi staði í herberginu þegar ég komst að því að afi hefði nappað þeim til að lesa. Einnig var alltaf fastur liður eins og venjulega að horfa á allar sápuóperurnar sem voru í gangi seinni partinn fyrir fréttir, Leiðarljós eða leiðindarljós eins og það var stundum kallað, Glæstar vonir og Nágranna. Það var alltaf hægt að gera grín að þeim þáttum með afa, og ef ég missti af nokkrum þáttum þá var stutt að hringja í ömmu og afa og fá uppfærslu á hvað hafi gerst.

Afi Elli og Ólín'amma eiga mjög kæran stað í hjarta mínu og það skipti miklu hvað þeim fannst. Því var ég ofsalega glöð þegar ég fékk þeirra samþykki fyrir eina stráknum, Elvari, sem ég kom með í heimsókn vestur að Eiðhúsum. Afa fannst þetta ekkert flókið: Elvar heldur með Liverpool og veiðir fisk. Benjamín Andri var líka glaður að fá að koma í sveitina og leit mikið upp til afa Ella, komandi úr týpískri flókinni íslenskri fjölskyldu með margar ömmur og afa, þá kallaði hann Ella afa: Afann. Afinn með greini, eins og það væri ofurhetjunafn.

Ég var með blendnar tilfinningar þegar amma og afi fluttu í bæinn, döpur yfir að missa sveitina mína en glöð að fá ömmu og afa í Mosfellsbæinn, en þar átti ég einnig heima ásamt Elvari manni mínum, Benjamín Andra (níu ára) og Erling Val sem var þá sex mánaða. En Erling Valur var skírður í höfuðið á afa Erling. Þegar ég tilkynnti honum það að hann ætti að heita þessu nafni varð honum á að segja hvort mér fyndist það nógu gott fyrir hann. Ég hló en svona var hógvær á sig sjálfan, en mér þótti og þykir það mjög merkilegt að láta nafnið ganga áfram.

Ég á margar góðar minningar úr Björtuhlíðinni í Mosó þar sem við Erling Valur röltum yfir í heimsókn. Skemmtileg var hefðin að hittast á jóladag yfir heitu hangikjöti í hádeginu og kaffiboð á páskadag, en skemmtilegastar voru grillveislurnar á sumrin þegar allir gátu komið og verið með. Eftir að amma fór á spítala í fyrsta sinn heimsótti maður afa einan í Björtuhlíð og það var alltaf eitthvað nýtt sem hann vildi segja manni sem hann hefði afrekað í húsverkunum, í fyrsta sinn án húsmóður, kominn á áttræðisaldurinn. Hann var stoltur og hann mátti líka alveg vera það. Hann passaði líka alltaf að muna eftir öllum afmælum, hringdi í öll systkini sín, börn og barnabörn.

Síðasta símtal sem ég fékk frá afa'Ella var á afmælisdaginn minn sem var viku áður en hann dó. Hann mundi vel eftir því að ég átti afmæli og var ég ofsalega glöð að heyra í honum og að hafa náð að svara honum þar sem ég var stödd erlendis. Tæpri viku seinna fór ég upp á Landakot til að sjá hann í síðasta sinn. Hann náði ekki að vakna þá en okkur var sagt að hann heyrði í okkur. Ég var glöð að hafa heyrt í honum á afmælisdaginn þar sem það var örlítið léttara yfir honum þá en hafði verið í fyrri heimsóknum þar sem hann var orðinn ansi þreyttur á þessari spítalainnlögn. Ég geymi því kært minninguna um símtalið góða á afmælinu.


Nú ertu frá okkur farinn
afi Erling, Elli eða Afinn
Minningarnar munu lifa
og eru þær ei auðveldar að skrifa.

Þá hugsun höldum við í,
að nú verðið þið amma saman á ný.
Með gleði í hjarta og tár á kinn,
þá kveð ég þig með þökkum Elli afi minn.



Hvíl í friði.

Þín afastelpa,

Elín Anna.