Eftir Hildi Björnsdóttur: „Er eðlilegt að umfangsmiklu almannafé sé eytt í veitingahúsnæði? Væri ekki eðlilegra að verja skattfé til grunnþjónustu við borgarbúa?“
Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir

Reykjavíkurborg innheimtir hæsta lögleyfða útsvar. Á síðasta kjörtímabili jukust skatttekjur borgarinnar um 30 milljarða á ársgrundvelli. Á sama tíma jukust skuldir borgarsjóðs um 45% – og áfram heldur skuldsetningin þrátt fyrir fögur fyrirheit um niðurgreiðslu skulda.

Tekjuaukning og aukið lánsfé virðist ekki ætla að duga núverandi meirihluta því næstu árin eru áform um 14 milljarða arðgreiðslur frá Orkuveitunni til borgarsjóðs. Svigrúm í rekstri Orkuveitunnar skal augljóslega ekki nýtt til gjaldskrárlækkana. Þess í stað heldur meirihlutinn álögum og þjónustugjöldum í hámarki. Allt á kostnað borgarbúa.

Þegar tekjutuskan er undin til fulls má velta því upp hvert fjármunir skattgreiðenda fara? Það er lágmarkskrafa að ráðdeild sé ráðandi við meðferð skattfjár. Það veldur vonbrigðum þegar auknar skatttekjur leiða ekki til öflugri grunnþjónustu. Ekki hefur aukningin runnið til samgöngubóta, skólamála eða húsnæðislausna.

...