Eftir Óla Björn Kárason: „Árangursrík efnahagsstjórn birtist ekki aðeins í hækkun ráðstöfunartekna allra aldurshópa. Styrkari stoðum hefur verið skotið undir séreignastefnuna.“
Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason

Ég vona að sálarangist stjórnarandstöðunnar sé að baki. Hrakspár um alvarlegan efnahagssamdrátt hafa að minnsta kosti ekki gengið eftir. Brúnin á þingmönnum ætti því að vera nokkuð léttari þegar þing kemur stuttlega saman í lok mánaðarins en hún var undir lok þinghalds í vor.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru fremur þungir í lund mestan hluta síðasta vetrar. Og ekki léttist geð þeirra þegar ákveðið var í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagsmálum að endurskoða fjármálastefnuna. Í gegnum þoku svartsýni var mörgum lífsins ómögulegt að viðurkenna að skynsamlegt væri, vegna verri aðstæðna í efnahagslífinu, að auka svigrúm hins opinbera og létta þar með undir með heimilum og fyrirtækjum. Engu var líkara en að stefna ríkisstjórnarinnar að ýta undir hagkerfið, í stað þess að kreppa að því með óbreyttri fjármálastefnu, tætti sundur viðkvæmt sálarlíf sumra stjórnarandstæðinga.

Flestum var ljóst í upphafi árs að umskipti væru fram undan

...