Eftir Eyjólf Ingva Bjarnason: „Eiga orkuskipti kannski bara að „reddast“ eins og viðkvæðið er oft gagnvart krefjandi verkefnum á Íslandi?“
Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Ríkisstjórnin hefur sett fram metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030. Einn hluti hennar er orkuskipti við samgöngur. Þar er þó einn hængur á. Fyrr í sumar kom út ný kerfisáætlun Landsnets 2019-2028, en samhliða kynningu hennar sagði forstjóri Landsnets að raforkukerfið væri of veikt fyrir orkuskipti. Það held ég að séu orð að sönnu. Flestar af byggðalínunum sem flytja rafmagn milli landshluta í dag eru fulllestaðar enda komnar til ára sinna, byggðar á árunum 1972-1984.

Árið 2017 var raforkunotkun skv. opinberum tölum 19.239 GWh – langstærstur hluti hennar fer til stórnotenda, s.s. stóriðju og gagnavera. Í raforkuspá 2018-2050 er gert ráð fyrir að raforkunotkun árið 2030 verði 22.576 GWh. Hlutfallsleg aukningin er kannski ekki mikil þegar á heildina er litið en hins vegar er umtalsverð aukning á hinni almennu notkun. Árið 2017 var hún 3.519 GWh en áætlað að hún verði 4.770 GWh árið 2030. Þetta er 35% aukning á almennri notkun

...