Guðmundur Sigurður Ingimarsson fæddist 6. júní 1955. Hann lést 10. mars 2020.

Hann verður jarðsunginn frá Seljakirkju í dag, 29. júní 2020, kl. 13.

Nú þegar Guðmundur Sigurður Ingimarsson eða Siggi bróðir er fallinn frá finnst mér við hæfi að þakka honum samfylgdina í nærri 65 ár.

Siggi var bæði gull og grjót, gullið sýndi hann oftast fjölskyldu og vinum. Hann var mjög hjálpsamur okkur systkinum sínum og var óspar á vinnu fyrir okkur ef svo bar undir. Það eru mörg handtökin sem hann lagði okkur hjónum til við smíði á sumarbústað okkar í landi Hests í Grímsnesi. Það varð til þess að hann keypti þar lóð og reisti sér fallegt hús, sem hann kallaði Merki, eftir húsinu sem hann átti á Eskifirði. Þar undi hann sér vel alla tíð og dvaldi þar löngum stundum eftir að hann greindist með krabbamein fyrir tveim árum. Hann eignaðist þar vini eins og annars staðar þar sem hann staldraði við.

...