Bjarni Benediktsson segir engan vafa leika á því að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins feli Sundabraut í sér.
Bjarni Benediktsson sendir borgaryfirvöldum tóninn vegna Sundabrautar.
Bjarni Benediktsson sendir borgaryfirvöldum tóninn vegna Sundabrautar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Í opnuviðtali við ViðskiptaMoggann furðar Bjarni sig á þeim töfum, sem orðið hafa á Sundabraut og segist ekkert skilja í því hvernig það mál geti enn verið óleyst á skipulagsstiginu. Við blasi að það sé eitt brýnasta málið í bættum og greiðari samgöngum inn í borgina.

Bjarni minnir á að við undirbúning samgöngusáttmálans hafi það verið helsta markmiðið að greiða úr umferðarhnútum og leysa skipulag í kringum nokkur lykilsamgöngumannvirki. Sundabrautin sér ein þeirra og samkomulagið feli í sér heildarlausn, menn geti ekki valið eitt og eitt úr eftir á.

Hann er ómyrkur í máli og segir að ef eitthvað standi út af í þeim efnum muni það óhjákvæmilega hafa bein áhrif á aðrar efndir samkomulagsins. Leysi stjórn verkefnisins það ekki muni það gerast á Alþingi: „Þingið mun ekki samþykkja fjárheimildir ef það er ekki jafnvægi í efndum verkefna samningsins.“