Margrét EA Landað í Neskaupstað.
Margrét EA Landað í Neskaupstað. — Ljósmynd/Smári Geirsson

Vel hefur gengið á síldveiðum fyrir austan land undanfarið og skipin yfirleitt verið fljót að ná skammtinum, oft í tveimur til fjórum holum. Ekki skemmir fyrir að veður hefur verið þokkalegt það sem af er vertíð og stutt að sigla til löndunar fyrir Austfjarðaskipin.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar var í vikunni rætt við Birki Hreinsson, skipstjóra á Margréti EA, sem kom til löndunar síðasta laugardag. „Við stoppuðum í átta og hálfan klukkutíma á miðunum og fengum þessi 1.150 tonn í tveimur 100 mínútna holum. Fyrra holið var 105 mínútur og hið seinna 110. Aflinn fékkst norðarlega og ofarlega á Glettinganesgrunni. Þarna var gríðarmikið af síld að sjá og engin vandræði að fá góðan afla. Síldin er líka eins og best verður á kosið,“ sagði Birkir.

Uppsjávarskipin hafa lokið makrílvertíð og er búið að landa um 150 þúsund tonnum.