Eftir Hjalta Halldórsson. Myndir: Blær Guðmundsdóttir. Bókabeitan, 2020, 176 bls.
Ofurhetjan eftir Hjalta Halldórsson er raunsönn en jafnframt spennandi og gamansöm saga af lífi unglinga sem þurfa að takast á við ýmis verkefni hversdagsins ásamt því að heyja alvörubaráttu fyrir réttlætinu.

Sagan fjallar um Gulla, sem dreymir um að verða ríkur og frægur og sigra heiminn. Hann langar að sanna sig fyrir þeim sem gerðu honum lífið leitt í gamla skólanum, en til þess þarf hann að gera eitthvað sem vekur eftirtekt og aðdáun annarra. Hann þráir líka að lækka rostann í Krumma sem er aðalgaurinn í skólanum og hikar ekki við að níðast á öðrum. Gulla gengur hins vegar illa að finna út í hverju styrkur hans felst, en með hjálp Helgu vinkonu sinnar tekst honum að koma sér á framfæri á Youtube, sem ofurhetjan Ormstunga sem berst gegn einelti. Hann verður svo upptekinn af nýfenginni frægð að hann tekur ekki eftir því að eitthvað er að hjá Helgu, svo alvarlegt að hún felur það fyrir besta vini sínum.

...