Hjólreiðar Keppni verður haldin í sumar.
Hjólreiðar Keppni verður haldin í sumar. — Morgunblaðið/Þórður

Hjólreiðakeppnin Síminn cyclothon, sem til ársins 2019 var kennd við flugfélagið WOW air, verður haldin dagana 22. til 25. júní í sumar. Í keppninni er bæði keppt í einstaklings- og liðakeppni með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, samtals 1.358 kílómetra á undir 72 klukkustundum.

Skráning í keppnina er opin næstu fjórar vikurnar og mun henni ljúka mánudaginn 3. maí. Fjöldi liða er nú þegar búinn að skrá sig til keppni og sem fyrr er mikið um lið sem mæta til leiks ár eftir ár, segir í tilkynningu frá Símanum.

„Allt bendir til þess að bæði keppni og æfingar geti farið fram þrátt fyrir að núverandi samkomutakmarkanir verði áfram í gildi í lok júní. Skipuleggjendur hafa gert ráðstafanir sem gera ræsingu mögulega í fjöldatakmörkun,“ segir m.a. í tilkynningunni.