Eftir Arnar Þór Jónsson: „Nái ég kjöri á Alþingi mun ég að sjálfsögðu láta af dómarastörfum á meðan ég gegni þingmennsku.“
Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson

Þegar allt er á fleygiferð, þegar pólitískrar og félagslegrar upplausnar gætir, þegar aðstæður eru ófyrirsjáanlegar, þá blasir við mikilvægi þess að menn hafi föst mið og óhagganleg gildi sem reynst hafa vel. Stjórnarskrá, lögum og stjórnmálum er ætlað að standa vörð um slík gildi.

Við stöndum nú frammi fyrir því að síðastnefndir öryggisventlar eru vanræktir. Gengið er frjálslega um ákvæði stjórnarskrárinnar, lýðræðisrót íslenskra laga trosnar frá ári til árs og stjórnmálamenn ganga sífellt lengra í að framselja vald sitt. Samhliða þessari þróun birtist ný sviðsmynd við sjóndeildarhringinn, þar sem ýmiss konar samtök og hagsmunahópar takast á um völd og áhrif. Hér vísa ég til hópa sem byggðir eru á hagsmunum og sameiginlegri sjálfsmynd þeirra sem samsama sig með hópnum. Þessi þróun er stærsta ógnin við lýðræðið og verður enn ókræsilegri þegar baráttan um völdin færist út fyrir landsteinana og risahagsmunir taka sér völd yfir þjóðríkinu.

...