Sigurður Gunnarsson fæddist 20. júní 1929 að Steinsstöðum Akranesi. Hann lést 3. september 2021. Útför hans fór fram 14. september 2021.

Siggi frændi hefur kvatt þennan heim eftir viðburðaríka ævi. Hann skilur eftir sig mikla arfleifð. Ef ég loka augunum sé ég hann fyrir mér með bros á vör, blik í augum og hatt á höfði. Yfirleitt alltaf glaður og eitthvað leiftrandi við hann. Alltaf að prófa eitthvað nýtt og plana til næstu árstíðar, næsta árs – eða lengra.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp með Sigga og Mundu sem nágranna og að alast upp með börnum þeirra, nánast eins og systkinum. Allir voru velkomnir á þeirra heimili og það var mikill samgangur á milli okkar krakkanna.

Ég byrjaði að vinna hjá Sigga þegar ég var 5 ára og man það eins og það hefði gerst í gær. Að taka kálplöntur og rófuplöntur á pönnur til að planta inn í sumarið. Ég vann mörg sumur hjá Sigga og lærði mikið.

...