— AFP
Árlegur hátíðisdagur í trúarbrögðum hindúa á Indlandi, makar sankranti, sem svo er nefndur, var haldinn í gær. Tugþúsundum saman flykktust sanntrúaðir hindúar að ánni Ganges og böðuðu sig þar í samræmi við aldagamlar hefðir. Á þessum degi er haldið upp á hækkandi sól og vetur kvaddur og sólguðinum þakkað fyrir hlýja geisla. Mismunandi er þó eftir landshlutum á Indlandi hvernig deginum er fagnað. Í Gujarat og Maharashtra setja litríkir flugdrekar svip sinn á daginn þar sem jafnt ungir sem aldnir taka þátt í flugdrekaleikjum. Í Punjab safnast fólk saman við stóran varðeld og hendir sælgæti, sykurreyr og hrís á eldinn samkvæmt því sem lesa má á íslenska trúarbragðavefnum.