Húsnæði ríkissáttasemjara.
Húsnæði ríkissáttasemjara.

Stíf fundahöld fara fram þessa dagana í húsnæði ríkissáttasemjara í stóru samfloti heildarsamtaka opinberra starfsmanna í BSRB, BHM og KÍ sem eiga í kjaraviðræðum við samninganefndir ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundað er frá morgni til kvölds að sögn Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara. Viðræðunum hefur ekki verið vísað til sáttasemjara heldur leggur hann til húsnæði og aðstöðu sem er mikið nýtt alla daga. Forsvarsmenn viðsemjenda verjast allra frétta af gangi viðræðnanna. Ekki var útilokað í gærdag að fundað yrði eitthvað um helgina.

Einnig eru í gangi viðræður viðsemjenda á almenna markaðinum vegna undirbúnings og úrvinnslu ýmissa mála í vinnuhópum fyrir gerð langtímasamnings sem taka á við þegar skammtímasamning­arnir renna út í lok janúar á næsta ári.