Fljótlegast væri að stytta vinnuvikuna um mánuð

Það voru óneitanlega eftirtektarverðar hádegisfréttir á „RÚV“ í gær. Á þinginu, sagði „RÚV,“ ræddu þeir um það, hversu vel eða illa hefði tekist til með styttingu vinnuvikunnar, en fyrr í fréttatímanum var rakin niðurstaða Gallup um það, hversu oft íslenskur almenningur ruglaðist á orðunum „apótek“ og „bakarí“ og færu menn því í annað þegar þeir ætluðu í hitt. Fyrst í stað hafa hlustendur hádegisfrétta vísast haldið helst að þeir sjálfir væru að ruglast á því, hvort það væri 24. maí þennan dag eða 1. apríl. En á daginn kom að þarna voru mikil alvörumál brotin til mergjar og rædd til þrautar, svo menn ruglist ekki á því. Það kom svo einnig á daginn að allt að því þriðji hver maður ruglaðist iðulega á þessum orðum, og mættu menn oftar en ekki ísköldu augnaráði afgreiðslukvenna, þegar þeir kæmu galvaskir inn í apótekið og vildu fá sérbakað vínarbrauð. En auðvitað geta menn, sem eru næmir og ruglast

...