Í dag er áttræður vinur minn og samferðamaður um langa hríð, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sjómaður, kennari, skólameistari, ritstjóri, formaður Alþýðuflokksins, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og sendiherra Íslands í Washington og Helsinki.

Fáa menn veit ég jafn leiftrandi greinda, litríka og skemmtilega. Sannarlega öngvan er lagt hefur jafngjörva hönd á að skapa forsendur hins auðuga íslenska velferðarsamfélags sem aldrei hefur staðið í jafnmiklum blóma og einmitt nú. Þökk sé ötulli og einbeittri baráttu hans fyrir þeim kostakjörum sem inngangan í EES, Evrópska efnahagssvæðið, færði okkur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Jóns Baldvins verður lengi minnst á Íslandi fyrir það pólitíska þrekvirki. Að sama skapi er hans hlýlega minnst í öðrum löndum sem hins djarfhuga stjórnmálamanns er fyrstur steig fram til atfylgis baltnesku þjóðunum í tvísýnni baráttu þeirra fyrir frelsi og langþráðu, endurheimtu sjálfstæði.

...