Kannabisplöntur Ræktunin var umfangsmikil og vel skipulögð.
Kannabisplöntur Ræktunin var umfangsmikil og vel skipulögð. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Tveir karlar og ein kona voru í gær dæmd til skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir ræktun kannabiss og vörslu marijúana í Þykkvabæ sem ætlað var til sölu og dreifingar. Málið var upprunalega hluti af stærra máli sem snýr að kannabisræktun og amfetamínframleiðslu í sumarhúsi í Borgarfirði. Í því máli voru alls sex ákærðir en málin voru aðskilin eftir að þremenningarnir játuðu að hafa staðið að kannabisræktuninni í Þykkvabæ.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi konuna og annan manninn í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi en hinn maðurinn fékk tíu mánaða skilorðsbundinn dóm. Öll voru þau sakfelld fyrir að hafa haft í vörslu sinni 206 kannabisplöntur, 111,5 grömm af kannabisstönglum og 823 grömm af marijúana. Plönturnar og efnin voru gerð upptæk ásamt búnaði sem notaður var til ræktunarinnar, m.a. 68 gróðurhúsalömpum, 44 viftum, átta vatnshitablásurum, fjórum rafmagnstöflum og tveimur gróðurtölvum.