Aðalheiður Lovísa Rögnvaldsdóttir fæddist á Siglufirði 18. apríl 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Siglufirði 28. október 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin Rögnvaldur Guðni Gottskálksson frá Dalabæ í Úlfsdölum við Siglufjörð, f. 1893, d. 1981, og Guðbjörg Kristín Aðalbjörnsdóttir frá Máná í Úlfsdölum við Siglufjörð, f. 1903, d. 1977. Bræður hennar voru: Jóhann, f. 1922, d. 1994, Gottskálk, f. 1927, d. 2015, Aðalbjörn, f. 1929, d. 2010, og Meyvant, f. 1933, d. 1991.

Heiða bjó alla tíð á Siglufirði. Hún starfaði við skrifstofu- og verslunarstörf. Hún var umboðsmaður HHÍ til fjölda ára.

Heiða var á sínum yngri árum mikið á skíðum og tók þátt í mörgum skíðamótum og hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum. Einnig var hún lengi í stjórn SSS. Þá tók hún mikinn þátt í starfi Sjálfsbjargar á Siglufirði.

Hún hafði líka mjög gaman af að spila á harmonikku.

Útför hennar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 9. nóvember 2019, klukkan 14.