Brynhildur Bolladóttir
Brynhildur Bolladóttir

Alls hefur 451 einstaklingur notið góðs af svokölluðum sárafátæktarsjóði Rauða krossins á Íslandi (RKÍ) síðan að úthlutun úr honum hófst í mars. Þá hafa 249 umsóknir borist og 215 verið samþykktar.

Sárafátæktarsjóðnum er ætlað að styðja við mjög tekjulága einstaklinga en á hverjum tíma eru allt að 6.000 einstaklingar sem glíma við sárafátækt á Íslandi, samkvæmt skýrslu Hagstofunnar.

„Til Rauða krossins leita oft einstaklingar í hvers kyns neyð. Fram að stofnun sjóðsins hafði Rauði krossinn aðeins stutt við fólk sem býr við mikla fátækt og neyð með fjárstuðningi í kringum jólin með jólaðstoð. Hins vegar er ljóst að þörfin er fyrir hendi allt árið um kring og því var stofnaður sérstakur sjóður með 100 milljóna króna stofnframlagi af sjálfsaflafé Rauða krossins,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi RKÍ, en hægt er að sækja um styrk á redcross.is.