Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hljóðið var gott í Tryggva Snæ Hlinasyni, landsliðsmiðherja í körfuknattleik, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær. Er það ekki skrítið þar sem Zaragoza, lið Tryggva, vann stórveldið Real Madrid á sannfærandi hátt á sunnudaginn 84:67 í spænsku úrvalsdeildinni.

„Þetta var magnað. Hjá okkur small allt og þetta gekk dásamlega. Að vinna þetta lið er náttúrlega bara veisla,“ sagði Tryggvi, sem var maður leiksins út frá framlagspunktunum sem fundnir eru út með tölum úr helstu þáttum íþróttarinnar. „Mér gekk mjög vel og held að ég hafi skilað því sem ég var beðinn að gera. Tavares, miðherjinn þeirra, er mjög mikilvægur fyrir þá og okkur tókst að koma honum í vandræði. Hann var í villuvandræðum í gegnum leikinn og fór loks út af með fimm villur. Gaf það okkur meira frelsi til að losa okkur nærri körfunni á lokamínútunum og við lönduðum sigrinum nokkuð þægilega, eins asnalegt...