Þó að margt kunni nú að minna á árið 1918 eru aðstæður allar aðrar
Vitað var að allar líkur væru á að kórónuveiran mundi valda dauðsföllum hér á landi. Það breytir því ekki að sorgin snertir alla þegar af því fréttist og alvaran kemur í ljós.

Fjöldi þeirra sem látist hafa um allan heim af þessari bráðsmitandi veiru nálgast nú tvo tugi þúsunda og fjölgar með vaxandi hraða. Þetta er ógnvekjandi þróun sem engin leið er að fullyrða um hvenær hægir á eða hversu margir falla í valinn áður en yfir lýkur. Engin leið er heldur að fullyrða um hvenær þessi ósköp ganga yfir, en vissara er að fólk búi sig undir allmargar vikur.

Ekki þarf að undra þó að hugur fólks hér á landi leiti stundum rúm eitt hundrað ár aftur í tímann um þessar mundir, eða til ársins 1918. Það ár geisaði gríðarmikil og skæð pest, ranglega nefnd spænska veikin, og sama ár var líka frostaveturinn mikli, sem svo hefur verið réttilega nefndur. Í byrjun þess árs gekk yfir landið fimbulkuldi og með honum fylgdi landsins forni...