Sóttvarnir Fátækrahverfi borgarinnar eru þéttbyggð og fjölmenn.
Sóttvarnir Fátækrahverfi borgarinnar eru þéttbyggð og fjölmenn. — AFP
Glæpagengi í fátækrahverfum Rio de Janeiro, stærstu borgar Brasilíu, hafa hengt upp skilti í hverfunum síðustu daga þar sem fyrirskipað er algjört útgöngubann eftir klukkan átta á kvöldin. Fylgir með loforð um að hver sá sem finnist á ferli eftir þann tíma muni læra að „virða“ næsta útgöngubann.

Aðgerðin er sögð viðbragð gengjanna við útbreiðslu kórónuveirunnar, en óttast er að hún geti haft gríðarleg áhrif í fátækrahverfunum, þar sem margir búa þétt saman við lakan kost og hafa ekki greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Á skiltum gengjanna má einnig lesa gagnrýni á aðgerðaleysi brasilískra stjórnvalda, og segir meðal annars að ef ríkisstjórnin hafi ekki getuna til að leysa málin muni glæpagengin sjá um það.