Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson: „Hvað er skaðlegra í þessu samhengi en það að segja ungu fólki að það sé sama hvort það leggur sig fram eða ekki, það muni aldrei njóta sannmælis vegna þess að samfélagið sé gegnsýrt af fordómum og muni halda því niðri?“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Síðastliðinn laugardag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu sem vakti nokkra athygli. Ástæða er til að þakka fólkinu sem hrósaði greininni en þó sérstaklega þeim sem reyttu hár sitt og fordæmdu skrifin. Án þeirra hefði ekki tekist að færa sönnur á innihald greinarinnar.

Að vísu verð ég að fallast á að ekkert bendi til þess að þorri gagnrýnenda hafi haft fyrir því að lesa greinina. Líklega hafa nokkrir þeirra gert það en þeim tókst þó ágætlega að leyna því.

Með viðbrögðunum fékkst staðfesting á öllum meginatriðum greinarinnar um eðli svo kallaðra ímyndarstjórnmála og rétttrúnaðar samtímans. Litlar sem engar athugasemdir voru gerðar við innihaldið. Þess í stað völdu gagnrýnendur sér það sem þá langaði helst að setja út á, ímynduðu sér að það stæði í greininni og fordæmdu það svo. Þessu fylgdu hefðbundið persónuníð og sleggjudómar. Allt samkvæmt uppskrift ímyndarstjórnmálanna.