Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Evrópuríkin eitt af öðru birtu í gær upplýsingar um afkomu sína á fyrri helmingi ársins. Kom þar vel í ljós hinn mikli skaði sem kórónuveiran hefur valdið í efnahagslífinu. Veiran er aftur í uppsveiflu sem kallar á nýjar fórnir í daglegu lífi og afkomu fyrirtækja. Hálfu ári eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir hnattrænu neyðarástandi vegna kórónuveirunnar hefur hún stórskaðað hagkerfi heims og rúmlega 17 milljónir manna smitast af henni.

Efnahagslegur samdráttur upp á 13,8% varð í Frakklandi á öðrum ársfjórðungi og verg þjóðarframleiðsla á Spáni hrundi um 18,5%. Samdrátturinn nam 14,1% í Portúgal og þjóðarframleiðslan á Ítalíu skrapp saman um 12,4%. Ekkert Evrópuland var undanþegið kreppu en á Evrusvæðinu í heild skrapp þjóðarframleiðslan saman um 12,1% í apríl, maí og júní og 11,9% í Evrópusambandinu öllu.

...