Forsætisráðherra Suga þakkar hér þingmönnum fyrir kjörið.
Forsætisráðherra Suga þakkar hér þingmönnum fyrir kjörið. — AFP
Yoshihide Suga var í gær kjörinn af japanska þinginu til þess að taka við embætti forsætisráðherra eftir að Shinzo Abe, sem lengst allra hefur gegnt embættinu, lét af völdum fyrr í mánuðinum.

Suga hét því í þakkarræðu sinni að hann myndi halda kórónuveirunni í skefjum og reyna að byggja upp á ný efnahag landsins, sem nú gengur í gegnum samdrátt vegna heimsfaraldursins.

Þá sagðist Suga myndu halda stefnumálum Abes á loft. „Við þurfum að ýta áfram stefnumálum ríkisstjórnar Abes, mér finnst sem það sé verkefnið sem fyrir mig hefur verið lagt,“ sagði Suga meðal annars í ræðu sinni.

Suga er 71 árs gamall og stýrði hann síðast skrifstofu ríkisstjórnarinnar. Var Suga ötull talsmaður Abes og álitinn hans hægri hönd.

Ríkisstjórn Suga er að miklu leyti svipuð og fráfarandi ríkisstjórn Abes, þar sem bæði utanríkis- og fjármálaráðherrann verða áfram í sínum hlutverkum.