Norðurljós Græn ljósblika á himinhvolfinu þegar horft var frá Straumsvík til suðvesturs þar sem hið svipsterka og fallega hús í Straumi var í forgrunni.
Norðurljós Græn ljósblika á himinhvolfinu þegar horft var frá Straumsvík til suðvesturs þar sem hið svipsterka og fallega hús í Straumi var í forgrunni. — Ljósmynd/Óðinn Ingvason

Straumar norðurljósa svifu með tilþrifum á næturhimni um helgina. Myndasmiðir fóru á stjá, margir til dæmis á Suðurnesin, þar sem skyggni var ágætt. Óðinn Yngvason ljósmyndari í Hafnarfirði var þar syðra aðfaranótt mánudags við annan mann og á leið í bæinn stoppuðu þeir hjá Straumi og náðu myndum þar.

„Norðurljósamyndatökur eru áskorun, en útkoman getur þegar best tekst til verið mikillar vinnu virði,“ segir Óðinn sem hefur fengist við myndatökur frá barnsaldri. Ljósmyndin af Straumi var tekin með 20 mm linsu á löngum tíma og ljósnæmi myndavélarinnar, sem var Nikon D810, var 800 ISO.

Lítil virkni verður á norðurljósum himinsins allra næstu daga. Langtímaspár gera hins vegar ráð fyrir að fjör færist í leikinn næsta sunnudag en þá og fram í vikuna verði sólgos og kórónuskvettur í öllu sínu veldi svo eftirtekt veki um veröld víða. sbs@mbl.is