Tilraunir forsætisráðherra til að tryggja dreifða eignaraðild fengu lítið fylgi síðast

Haganleg setningasmíð gerir innihaldið trúverðugra. Þegar vilji tók að vakna til þess að fækka þunglamalegum ríkisstofnunum og nota meint afl einkareksturs til að stýra fyrirtækjum var samheiti aðgerðanna stundum nefnt „einkavæðing“. Lunkinn rithöfundur og blaðamaður kallaði umbreytinguna „einkavinavæðingu“ með hliðsjón af falli bankanna. Auk fyrrnefndra hæfileika var orðasmiðurinn krati til áratuga og svo samfylkingarmaður. En það skondna var að sá flokkur viðraði sig mest allra utan í útrásarbubba og fordæmdi harðlega, ef orði var hallað eða aðvörunarorð um þróun þessara mála. Hitt er auðvitað rétt að undirrót ófara íslenska bankakerfisins var hluti af stórbrotnum alþjóðlegum hrakförum fjármálafyrirtækja. En oflátungshátturinn hér og taumleysið jók mjög hinn séríslenska vanda.

Tuttugasta öldin var tími mikilla breytinga. Fyrstu áratugirnir framfaratími upplitsdjarfrar þjóðar og hlaut ríkisvaldið að vera í fararbroddi fyrir flest,...