Eftir Dóru Björt Guðjónsdóttur og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur: „Með yfirlýsingunni skuldbindur Reykjavíkurborg, ásamt öðrum borgum, sig til að setja aðgerðir í loftslagsmálum í forgang við alla ákvarðanatöku.“
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir

„Árið 2021 verður að vera árið sem mannkynið vingast aftur við náttúruna.“ Þetta eru orð António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Þessi orð hvíla á þeirri staðreynd að loftslagsbreytingar eru mannanna verk sem bitna á náttúrunni. Eftir áratugalanga ofnýtingu og eyðileggingu á náttúrunni blasir við átakanleg mynd. Hitastig plánetunnar rýkur upp ár eftir ár og sjötta fjöldaútrýming tegunda er gengin í garð. António Guterres heldur því fram að mannkynið þurfi að vingast aftur við náttúruna. En hvenær voru maðurinn og náttúran eiginlega vinir?

Mannkynssagan hefur sýnt okkur að maðurinn hefur nánast ávallt litið á sjálfan sig sem náttúrunni æðri. Þannig hefur manninum gengið ansi illa í sínu sambandi við náttúruna. Sambandið hefur ekki verið vinasamband. Frekar eitthvað sem er meira í ætt við ofbeldissamband. Útrýming stórra spendýra hefur haldist í hendur við dreifingu dýrategundarinnar mannsins, Homo sapiens, um plánetuna.

...