Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Loðna hefur veiðst víða fyrir sunnan land og austan á vertíðinni og er unnið á sólarhringsvöktum þar sem mest umsvif eru. Fyrir helgi fréttist af loðnu við Grímsey og um helgina voru fregnir af loðnu í grennd við Flatey á Skjálfanda. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson var í gær á leið á þessar slóðir til að kanna hversu mikið af loðnu er þarna á ferðinni.

Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir alltaf erfitt að meta hvort marktækt magn sé á ferðinni samkvæmt fréttum sem berist frá veiðiskipum. Fréttirnar frá Grímsey og úr Skjálfanda hafi hins vegar verið þess eðlis að ákveðið hafi verið að kanna það nánar. Því hafi verið ákveðið að gera hlé á leiðangri Bjarna Sæmundssonar, sem var við umhverfismælingar, og halda norður fyrir land. Það ætti því að skýrast á næstu dögum hversu mikið af loðnu er þarna á ferðinni.