Eftir Arnar Þór Jónsson: „Sem sjálfstæð þjóð stöndum við nú veikum fótum. Ef svo heldur fram sem horfir er alls ekki víst að frjálslynd lýðræðishefð haldi hér velli.“
Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson

Saga mannkyns sýnir að frelsið er dýrmætt og lýðræðið viðkvæmt. Dæmin sanna einnig að ótemprað vald er ógn við hvort tveggja. Stjórnarskrá okkar geymir mikilvæg ákvæði um temprun ríkisvaldsins. En hvaða varnir hefur íslensk þjóð gagnvart erlendu valdi þegar það seilist til áhrifa hérlendis og kallar eftir yfirráðum sem stjórnarskráin ætlar íslenskum yfirvöldum einum? Á síðustu árum hafa ytri og innri mál lýðveldisins þróast með þeim hætti að ekki verður lengur undan litið. Dynjandi óveðursskýin ættu nú að vera greinileg öllum þeim sem hafa augu til að sjá og eyru til að heyra.

Bönd lýðræðisins trosna

Tengslarofið milli almennings og valdhafa birtist í ýmsum myndum og skulu hér nefnd nokkur dæmi:

1. ESB hefur í framkvæmd tekið yfir hluta af valdsviði Alþingis með þeim hætti að aragrúi reglna streymir nú í gegnum þjóðþing Íslendinga á ári hverju án efnislegrar aðkomu, endurskoðunar eða breytinga

...