Eftir Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún: „Nú ætti að fá lærða rannsakendur, sem búa yfir sterku innsæi og dómgreind, til að skoða þetta mál frá grunni.“
Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún
Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún

Geirfinnsmálið er svo margslungið mál, að þörf er á eftirfarandi viðauka við fyrri grein mína um sama mál.

Leirfinnur

Á þessum tíma voru ekki til farsímar og sumir „útréttingamenn“ fengu á ferðum sínum oft að fara í síma til að boða komu sína og greiða fyrir erindrekstri sínum. Mér finnst heldur ósennilegt, að maður sem ætlar að eiga alvarleg samskipti við Geirfinn í aðdraganda hvarfs hans, hafi byrjað á því að ganga inn í Hafnarsjoppuna, þar sem hann gat orðið á vegi fólks sem þekkti hann og fá þar að hringja, þar sem fólk gat hugsanlega heyrt hvert orð sem hann segði.

Er ekki líklegra að hringt hafi verið í Geirfinn úr heimahúsi? Með það í huga, er að sumu leyti líklegt að „Leirfinnur,“ maðurinn í leðurjakkanum, sem vildi hringja úr Hafnarsjoppunni, sé hvarfi Geirfinns með öllu óviðkomandi og þar hafi rannsakendur lent inni á miklum villigötum?

...