Inga Sæland
Inga Sæland

Flokkur fólksins vill breyta núverandi kerfi í kringum persónuafslátt einstaklinga og flytja með því á sjötta tug milljarða frá launafólki með 600 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun til þeirra sem lakari hafa kjörin.

Þetta segir Inga Sæland, formaður flokksins, sem er viðmælandi Dagmála í dag. Segir hún slíka breytingu réttláta og sanngjarna. Útfærslan verði með því móti að persónuafslátturinn minnki eftir því sem ofar kemur í launastiganum og við ákveðin mörk njóti hálaunafólks engrar ívilnunar af hendi skattkerfisins.

Þá vill Flokkur fólksins hækka skattleysismörk launatekna í 350 þúsund á mánuði. Metur flokkurinn það svo að ríkissjóður þurfi þá að bæta sveitarfélögum tapað útsvar upp á u.þ.b. 30 milljarða árlega.