Viðtal

Oddur Þórðarson

oddurth@mbl.is

Ferðamannaiðnaðurinn í Kosta Ríka er vel skipulagður og hæfilega miðstýrður, án þess þó að einkaaðilum sé settur stóllinn fyrir dyrnar. Gustavo Seguro Sancho ferðamálaráðherra landsins segir að með hæfilegri miðstýringu og yfirvegaðri stjórnsýslu megi nýta ferðamannaiðnaðinn sem auðlind fyrir alla íbúa landsins, óháð því hvar þeir búa.

Árið 1948 tók Kosta Ríka þá afdrifaríku ákvörðun að losa sig við herafla sinn og nýta útgjöldin í að byggja upp innviði. Í stað herafla kom sterkt velferðarkerfi og þétt net þjóðgarða, sem þekja nú um 26% flatarmáls landsins. Seguro Sancho segir að með þessu hafi grunnurinn að velgengni ferðaþjónustu þar í landi verið lagður – velgengni sem byggð er á sterkum innviðum, háu menntunarstigi og miklum almannagæðum í formi þjóðgarða og ríkrar tilhneigingar íbúa til umhverfisverndunar.