
Stofnþing Lyftingasambands Íslands var haldið 27. janúar 1973 í kringum tvær íþróttagreinar, sú fyrri var ein af upphafsgreinum Ólympíuleikanna, ólympískar lyftingar, og hin kraftlyftingar. Kraftlyftingar kljúfa sig út úr Lyftingasambandinu og stofna sérsamband utan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands árið 1985 en ganga aftur í sambandið 2011 og verða þeim ekki gerð frekari skil í þessu yfirliti.
Á stofnþinginu voru 23 karlmenn mættir sem margir áttu eftir að láta vel að sér kveða í tengslum við ólympískar lyftingar, kraftlyftingar og aðrar íþróttir líkt og glímu og vaxtarrækt. Áratug áður nánast upp á dag hafði þó fyrsta lyftingamótið farið fram á vegum ÍR og má því segja að lyftingar sem keppnisgrein eigi 60 ára sögu á Íslandi þótt vissulega hafi kraftagreinar fylgt sögu landsins frá örófi, en blaðamaður sem gerði grein fyrir fyrsta lyftingamótinu vitnar í steinana Fullsterkan, Hálfsterkan og Amlóða.
...