— Morgunblaðið/Guðlaugur J. Albertsson

Framkvæmdir við annan áfanga nýs vegar yfir Dynjandisheiði fara í fullan gang á næstu dögum eða vikum. Veturinn hefur verið erfiður til framkvæmda en Suðurverk hefur þó notað hann til undirbúningsframkvæmda, sérstaklega við sprengingar.

Myndin var tekin í fyrradag þar sem unnið var í Vatnahvilftinni en þar er vegurinn sprengdur inn í bratta hlíð. Fyrst þurfti að koma tækjunum efst upp í hlíðina en síðan sprengdu verktakar sig niður á rétt plan.

Þessi áfangi er 12,6 km að lengd og liggur um hæsta kafla heiðarinnar, frá Norðdalsá sem er norðan vegamóta Bíldudalsvegar og norður fyrir sýslumörk Ísafjarðarsýslu. Vegurinn fer hæst í um 500 metra hæð.

Tilboð Suðurverks hljóðaði upp á 2,5 milljarða á sínum tíma. Verkinu á að ljúka sumarið 2024. helgi@mbl.is