Bettina Stark-Watzinger
Bettina Stark-Watzinger

Menntamálaráðherra Þýskalands, Bettina Stark-Watzinger, mun í næstu viku sækja Taívan heim og verður það fyrsta heimsókn þýsks ráðherra til eyjarinnar í 26 ár. Tilgangur ferðarinnar er að efla samstarf ríkjanna á sviði vísinda, rannsókna og menntunar. Tveir mánuðir eru frá því að þýsk sendinefnd kom seinast til Taívans og vakti sú heimsókn sterk viðbrögð Kínverja. Búast má við svipaðri andstöðu nú.

Samskipti Kína og Taívans eru mjög eldfim um þessar mundir og hafa vestræn ríki verið iðin við að sýna stuðning við Taívan. Hafa Bandaríkin m.a. haldið úti siglingum um Suður-Kínahaf, ráðamönnum í Beijing til ama.

Kínverjar beita Taívan miklum þrýstingi, þ.e. hernaðarlegum, pólitískum og efnahagslegum. Að auki virðist hætta á kínverskri innrás raunveruleg.