
Mist Þormóðsdóttir Grönvold
mist@mbl.is
Tjaldar verpa yfirleitt tveimur til fjórum eggjum. Það kom því bræðrunum Markúsi og Jasoni Ívarssonum mikið á óvart þegar þeir fundu fimm eggja tjaldshreiður á jörð Markúsar í Flóahreppi, en þar hafa tjaldar lengi hreiðrað um sig á þessum tíma árs.
Tjaldurinn er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er hávaðasamur og félagslyndur fugl, er að mestu leyti farfugl en en um 5.000 til 10.000 fuglar hafa vetursetu við strendur Íslands. Tjaldurinn verpir víða, einkum í möl og sandi en einnig við ár og vötn. Varp- og ungatímabil tjaldsins hefst í mars og lýkur í ágúst og er því í fullum gangi um þessar mundir. Þetta kemur fram á fuglavef Menntamálastofnunar sem heldur úti alhliða fræðsluvef um íslenska fugla.