Sýning á verkum Steingríms Gauta var opnuð í Marguo-galleríinu í París á föstudaginn. Chop Wood, Carry Water, eða Höggvum við, berum vatn, kallast hún og um er að ræða aðra sýningu listamannsins í téðu galleríi. „Löng saga kann að vera á bak við það sem ég geri. En það skiptir ekki máli,“ er haft eftir Steingrími Gauta á vefsíðu gallerísins.
Verkin á sýningunni eru frá umliðnu ári og í kynningu segir að sýningin endurspegli „viðkvæman dans milli þess að umfaðma hinar uppbyggilegu hliðar egósins og að koma auga á hugsanlega pytti þess“.
Steingrímur Gauti er fæddur árið 1986 og vinnur jöfnum höndum stór olíu- og akrílverk og með blandaða miðla. Innblástur sækir hann víða, svo sem í listasögu tuttugustu aldarinnar, andleg málefni og heimspeki zen-búddisma.
...