
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Mark Rutte, lýsti því yfir í gær að þörf væri á „risastökki“ í sameiginlegri varnargetu bandalagsríkjanna. Þar á meðal sagði Rutte þörf á 400% aukningu í loft- og eldflaugavörnum til þess að verja ríkin gegn Rússlandi.
„Við sjáum í Úkraínu hvernig Rússland veldur ógn úr lofti, þannig að við munum styrkja skjöldinn sem ver himna okkar,“ sagði Rutte í ávarpi sem hann flutti í Chatham House-hugveitunni í Lundúnum.
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins fer fram í Haag eftir tvær vikur, en Rutte hefur þrýst á um að þar verði samþykkt nýtt markmið um útgjöld til varnarmála, þannig að bandalagsríkin skuldbindi sig til þess að verja 3,5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála fyrir árið 2032 og 1,5% í ýmsa innviði, sem einnig geta nýst til varna.
...