Dansarar úr Dans Brynju Péturs fóru með sigur af hólmi í sínum flokki í Hiphop Weekend Street Dans-hátíðinni, sem haldin var í Malmö í Svíþjóð um síðustu helgi. Þetta er í fimmta skiptið sem dansarar frá Brynju taka þátt í þessum dansbardaga og var mikil gleði í hópnum eftir glæsilegan sigur. „Það var ótrúlega gaman að fagna sigri í Showcase-flokknum eftir alla vinnuna sem stelpurnar hafa lagt í þetta,“ segir Brynja Péturs. „Það er til fyrirmyndar hvernig þessar stelpur vinna saman og búa til atriðið og ótrúlegt að við eigum svona færa dansara á litla Íslandi.“ Danshöfundar verksins sem vann eru Kristín Hallbera Þórhallsdóttir, Edda Guðnadóttir og Emilía Björt Böðvarsdóttir og auk þeirra þriggja dönsuðu í atriðinu Beata Emilia Kocot, Iðunn Anna Hannesdóttir, Sunna Björg Sigurðardóttir, Alexandra Velez og Birta Rún Pétursdóttir.